Mikill aðflutningur
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 14. febrúar 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Í nýútgefnum tölum Hagstofu Íslands um búferlaflutninga árið 2007 kemur fram að það dró lítið úr íbúafjölgun vegna búferlaflutninga milli landa ef miðað er við árin 2005 og 2006 þegar aukningin var mest.
Aðfluttir umfram brottflutta voru 3.352 árið 2007 sem er 1% af íbúafjölda landsins. Þó hefur þróunin verið mismunandi milli einstakra landsvæða eins og sjá má á myndinni. Þannig voru aðfluttir umfram brottflutta milli landa á höfuðborgarsvæðinu 3.257, eða um 1.000 fleiri en árið 2006.
Aðfluttum umfram brottflutta fjölgaði einnig á landsbyggðinni utan Austurlands og var fjölgun vegna þeirra nær 1.300 manns. Þar munar mest um Suðurnes þar sem nettóflutningur nam 340 manns. Á Vesturlandi var munurinn 280 og á Norðurlandi eystra 260. Það er einungis á Austurlandi sem brottfluttir eru fleiri en aðfluttir í flutningum milli landa. Það stafar af því að framkvæmdunum eystra er nær lokið og starfsmenn á vegum hinna erlendu verktaka eru farnir á brott. Mismunur aðfluttra og brottfluttra er 1.453 þrátt fyrir það að rúmlega þúsund manns hafi flust til Austurlands í fyrra frá útlöndum.
Það var einungis árin 2005 og 2006 sem fleiri fluttust þangað frá útlöndum. Þessar tölur sýna ótvírætt að árið 2007 var meiri eftirspurn eftir vinnuafli hér á landi en nokkru sinni fyrr og að enn eru engin merki um að slakna sé á í þeim efnum.
Að einu leyti er árið 2007 frábrugðið fyrri árum. Á árunum 2004 til 2006 voru karlar mun fleiri en konur í hópi aðfluttra eftir að kynjaskipting hafði verið jöfn til margra ára. Konum hefur að vísu fjölgað í hópi aðfluttra en körlunum meira þar til í fyrra. Þá fluttust örlítið færri karlar til landsins en áriö 2006 meðan konurnar hafa aldrei verið fleiri. Þetta bendir til þess að vaxandi fjöldi aðfluttra sé að sameina fjölskyldur og þá jafnframt að festa sig í sessi hér á landi. Jafnframt bendir þetta til þess að eftirspurn eftir vinnuafli í fleiri atvinnugreinum sé nú sinnt af erlendu starfsfólki en áður var.