Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2008 Utanríkisráðuneytið

Friðarráð Palestínu og Ísrael á Íslandi í boði utanríkisráðherra

: Maha Abu-Dayyeh Shamas, Ingibjörg Sólrún gísladóttir og Anat Saragusti
Maha Abu-Dayyeh Shamas, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Anat Saragusti

Konur í Palestínu hugsa ekki með tilhlökkun til framtíðarinnar og þess er synir þeirra nái táningsaldri. Þær reyna allt til þessað koma þeim úr landi, til að forðast það að þeir dragist inn í ákök Palestínumanna og Ísraela, sögðu þær Anat Saragusti, sjónvarpsfréttakona frá Ísrael, og Maha Abu-Dayyeh Shamas, baráttukona fyrir auknum réttindum kvenna í Palestínu á opnum fundi í Reykjavík í gær.

Þær Maha og Anat komu til Íslands í boði Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra til að ræða framlag kvenna til friðarferlisins í Mið-Austurlöndum en þær eru meðlimir í Frriðráði palestínskra og ísraelskra kvenna, sem stofnað var árið 2005 af áhrifakonum í palestínsku og ísraelsku þjóðlífi; þingmönnum, ráðherrum og forystukonum frjálsra félagasamtaka. Einnig eiga aðild að ráðinu erlendar áhrifakonur og er Ingibjörg Sólrún einn heiðursfélaga í ráðinu.


Vel á annað hundrað manns mættu á opinn fund með Maha og Anat, þar sem þær ræddu á athyglisverðan hátt hvernig ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs hefur áhrif á daglegt líf, ekki aðeins þeirra sem þar búa, heldur langt út fyrir. Báðar þekkja konurnar vel til friðarferlisins í Mið-Austurlöndum og ræddu það, auk þess sem þær töluðu um aðkomu friðarráðsins að því.


Maha Abu-Dayyeh Shamas ræddi m.a. niðurlæginguna sem fólgin er í 9 metra háum múrnum sem aðskilur byggð ísraelskra landnema og palestínumanna og daglegum yfirheyrslum á eftirlitsstöðum. Sagði hún ástandið á hernumdu svæðunum hafa versnað í kjölfar fyrri friðarsamninga, sem hefði leitt til að ungt og vel menntað fólk hefði streymt úr landi. “Við erum að missa miðstéttina, sem hefur talað máli hófsemi,” sagði hún.


Anat Saragusti lagði áherslu á langtímaáhrif þess að búa á stöðum þar sem sífellt væri von á árásum, þar sem strangar öryggisráðstafanir og hernaðaraðgerðir lituðu daglegt líf. “Það er alger aðskilnaður, t.d. aðskilin vegakerfi, menn sjá ekki hvernig ástandið er hjá Palestínumönnum, sjá ekki nema aðra hliðina. Það er hættulegt að hunsa ástandið” sagði Anat, sem sjálf þekkir vel til mála beggja vegna í starfi sínu sem blaðamaður.


Friðarráðið leggur áherslu á að aðeins sé til pólitísk lausn á ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs, ekki hernaðarleg. Það sem máli skipti sé að halda þá friðarsamninga sem gerðir hafi verið. Lögðu Anat og Maha áherslu á að þriðji aðili, það er alþjóðasamfélagið, standi við bakið á deiluaðilum þegar að því komi að framfylgja, þar sem ljóst sé að Palestínumenn og Ísraelar geti ekki gert það einir og sér. “Þess vegna erum við svo þakklátar fyrir að fá að koma hingað og ræða þessi mál, og þakklátar fyrir að utanríkisráðherra ykkar hefur bæst í hóp þeirra sem talar okkar máli, talar máli friðar” sögðu þær.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta