Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Kjarasamningar breyta ekki spám um launaþróun

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 21. febrúar 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Á fimmtudaginn Hagstofan launavísitölu fyrir janúarmánuð.

Launavísitalan hefur hækkað um 1,3% frá fyrra mánuði og mælist árshraði launahækkana nú 6,2%, lægri en hann hefur verið í eitt og hálft ár. Um helming hækkunarinnar á launavísitölunni má skýra með samningsbundnum hækkunum hjá ríki og sveitarfélögum sem komu til framkvæmda um áramótin en helmingur er af öðrum orsökum.

Má reikna með að launabreytingar utan samninga hafi verið með líku móti í janúar og verið hefur undanfarna mánuði. Að einhverju leyti kunna fyrirtæki að hafa hækkað laun starfsmanna á undan kjarasamningum á almennum launamarkaði, í trausti þess að í þeim yrði launaþróunartrygging (s.k. baksýnisspegill) eins og raun varð á.

Lítið atvinnuleysi og mikil eftirspurn eftir vinnuafli eiga síðan efalítið sinn þátt í því hvernig framvindan er. Ársbreyting launavísitölunnar hrökk niður vegna þess að ekki varð almenn launahækkun í janúar eins og verið hefur undanfarin ár.

Samtök atvinnulífsins hafa metið kostnaðarauka sinna félagsmanna vegna kjarasamninganna 17. febrúar sem 4% en þar af eru 3,3% vegna launahækkana sem hafa áhrif á launavísitöluna. Samtökin meta launaþróunartryggingu sem 1,4% kostnaðarauka og einhver hluti hans kann að hafa orðið til strax í janúar. Í síðustu spá ráðuneytisins var gert ráð fyrir að launahækkanir í ár yrðu 5,8% á almennum vinnumarkaði.

Launavísitalan í janúar og nýgerðir kjarasamningar breyta ekki forsendum þeirrar spár. Meðan atvinnuástand er eins gott og verið hefur að undanförnu verður áfram þrýstingur á laun til hækkunar en spá ráðuneytisins gerir hins vegar ráð fyrir því að þessi þrýstingur taki að minnka eftir því sem líður á árið, m.a. vegna þess að reiknað er með því að atvinnuleysi taki að aukast.

Launavísitala 2003 til janúar 2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta