Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla samþykkt á Alþingi

Í dag voru samþykkt á Alþingi ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem ætlað er að leysa af hólmi eldri lög um sama efni. Í lögunum er að finna ýmis nýmæli auk þess sem einstaka ákvæði eldri laga eru skýrð nánar.

Helstu nýmæli í lögunum frá gildandi lögum eru eftirfarandi:

  • Eftirlitsheimildir Jafnréttisstofu með framkvæmd laganna eru efldar og gerðar skýrari auk þess sem Jafnréttisstofu er nú heimilt að fylgja ákvæðum laganna eftir með dagsektum í vissum tilvikum.
  • Úrskurðir kærunefndar jafnréttismála eru bindandi fyrir málsaðila í stað álitsgerða samkvæmt gildandi lögum auk þess sem lögfest hafa verið ýmis nýmæli varðandi málsmeðferð fyrir kærunefnd.
  • Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er hverjum manni nú heimilt að skýra frá launum sínum kjósi hann það.
  • Áætlun skal nú fylgja jafnréttisáætlunum sem fyrirtækjum með 25 eða fleiri starfsmenn er skylt að gera þar sem fram kemur hvernig tryggja skuli starfsmönnum ákveðin réttindi sem kveðið er á um í lögunum.
  • Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna skulu hafa sérþekkingu á jafnréttismálum.
  • Jafnréttisráð skal skipað með eftirfarandi hætti: Félags- og tryggingamálaráðherra skipar formann án tilnefningar, tvo fulltrúa sem tilnefndir eru sameiginlega af samtökum launafólks, tvo fulltrúa sem tilnefndir eru sameiginlega af samtökum atvinnurekenda, tvo fulltrúa sem tilnefndir eru sameiginlega af Femínistafélagi Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands og Kvenréttindafélagi Íslands, einn fulltrúa sem tilnefndur er sameiginlega af Samtökum um kvennaathvarf og Stígamótum, einn fulltrúa sem tilnefndur er af Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum, einn fulltrúa sem tilnefndur er af Félagi um foreldrajafnrétti og einn fulltrúa sem tilnefndur er af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
  • Félags- og tryggingamálaráðherra skal boða til sérstaks jafnréttisþings innan árs frá alþingiskosningum og aftur að tveimur árum liðnum í því skyni að hvetja til virkari umræðu um jafnréttismál meðal almennings á sem flestum sviðum samfélagsins.
  • Félags- og tryggingamálaráðherra skal innan árs frá alþingiskosningum leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára í senn, í fyrsta skipti haustið 2008 sem gilda skal til vors 2012.
  • Félags- og tryggingamálaráðherra skal sjá til þess að þróað verði sérstakt vottunarkerfi á framkvæmd stefnu um launajafnrétti og framkvæmd stefnu um jafnrétti við ráðningar og uppsagnir í samvinnu við samtök aðila vinnumarkaðarins.

Tenging frá vef ráðuneytisinsLög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta