Hoppa yfir valmynd
27. febrúar 2008 Utanríkisráðuneytið

Málefni Kósóvó og aðkoma kvenna að friðarmálum voru á meðal umræðuefna á fundi utanríkisráðherra og aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Ban Ki-moon
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna

Málefni Kósóvó og aðkoma kvenna að friðarmálum voru á meðal umræðuefna á fundi Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra sem var haldinn í í höfuðstöðvum stofnunarinnar í New York í gær.

Á fundinum ræddi Ban Ki-moon hina viðkvæmu stöðu mála í Kósóvó sl. 9 ár, starf SÞ og samráð við Evrópusambandið vegna aðkomu alþjóðasamfélagsins að málefnum svæðisins. Lagði hann áherslu á hversu mikilvægu hlutverki alþjóðasamfélagið hefði að gegna í Kósóvó. Sameinuðu þjóðirnar legðu enn ályktun Öryggisráðs SÞ númer 1244 til grundvallar en staða Kósóvó og starf alþjóðastofnana þar hefur byggt á þessari ályktun allt frá því að bundinn var endir á átökin í Kósóvó í júní 1999. Sagði Ingibjörg Sólrún að Íslendingar hefðu í hyggju að viðurkenna sjálfstæði Kósóvó en ekki lægi fyrir endanleg ákvörðun um hvenær það yrði.

Ban Ki-moon og utanríkisráðherra ræddu málefni Ísrael og Palestínu og tók aðalframkvæmdastjórinn undir þá hvatningu Ingibjargar Sólrúnar að friðarráð palestínskra og ísraelskra kvenna, IWC, yrði aðili að friðarsamningum milli þjóðanna. Sagði Ingibjörg Sólrún að án þátttöku kvenna og fulltrúa frjálsra félagasamtaka væri hætta á að friðarferlinu miðaði lítt áfram.

Þá ræddu þau loftslagsmál og jafnréttismál, sem eru ein helstu áherslumál beggja í embætti. Lýsti utanríkisráðherra samstarfi Íslands við þjóðir um allan heim á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Sagði hún aukna áherslu á miðlun þekkingar á þessu sviði svo og jafnréttismála í íslenskri utanríkisstefnu.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta