Hoppa yfir valmynd
5. mars 2008 Utanríkisráðuneytið

14,4 milljónir króna til neyðaraðstoðar í Darfúr

Utanríkisráðuneytið hefur lagt fram 14,4 milljónir króna til neyðaraðstoðar á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar í Darfúr. Er það í annað skiptið sem ráðuneytið leggur þessu málefni lið í samstarfi við Hjálparstarf kirkjunnar. Framlaginu er varið í eitt stærsta neyðarverkefni sem unnið er í Darfúr sem Alþjóðaneyðarhjálp kirkna, ACT og Caritas, hjálparstofnun kaþólsku kirkjunnar standa að.

Frá árinu 2003 hafa um 250.000 manns látið lífið og um 2,5 milljónir manna hafa neyðst til að flýja heimili sín og setjast að í flóttamannabúðum. ACT/Caritas verkefnið í Darfúr hófst árið 2004 og er með stærstu neyðarverkefnum sem framkvæmd eru í Darfúr. Að minnsta kosti 350.000 einstaklingar nýta sér daglega þá aðstoð sem boðið er uppá. Fólk fær mat, vatn, skjól og heilsugæslu og verkþjálfun t.d. tengt vatnsöflun og hreinlæti. Lögð er áhersla á gott samstarf hinna ólík hópa og reynt að skapa traust þeirra á milli. Börn fá sérsniðna aðstoð til að glíma við óöryggi, sorg og neyð. Þrátt fyrir ítrekaðar alþjóðlegar aðgerðir til þess að stuðla að friði hefur ástandið enn versnað á undanförnum árum.

Samkvæmt rannsóknum sem fóru fram árið 2005 eru konur og börn að minnsta kosti 75% af flóttamönnum í Darfúr. Ofbeldi, þ.m.t. kynferðislegt ofbeldi gegn konum, er markvisst skipulagt sem hernaðaraðgerð stríðandi fylkinga. Þess vegna er öryggi, áfallahjálp og vernd fyrir konur og börn eitt af mikilvægustu markmiðum verkefnisins og gegnumgangandi á öllum verksviðum.

Utanríkisráðuneytið og Hjálparstarf kirkjunnar munu ferðast til Darfúr á næstu dögum til þess að fylgja framlaginu eftir og kynna sér aðstæður. Einnig mun Hjálparstarfið fara af stað með sérstaka Darfúr söfnun í lok mars.


Frekari upplýsingar gefa:

Elín Rósa Sigurðardóttir
Sérfræðingur hjá Skrifstofu þróunarsamvinnu
Utanríkisráðuneytisins
Sími. 545 8929, [email protected]

Jónas Þ. Þórisson
Framkvæmdarstjóri Hjálparstarfs kirkjunnar
Sími. 528 4402, 8969646, [email protected]



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta