Hoppa yfir valmynd
6. mars 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Landsskipulagsáætlun er verkfæri við umhverfisvernd

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra
Þórunn Sveinbjarnardóttir

Nýverið mælti ég fyrir frumvarpi til skipulagslaga á Alþingi. Í frumvarpinu er að finna ýmis nýmæli, og verði það að lögum mun það styrkja skipulagsgerð í landinu og efla þátttöku almennings í henni. Í því er einnig viðurkennd þörfin á því að ríkisvaldið leggi til heildstæða sýn í skipulagsmálum með svokallaðri landsskipulagsáætlun.

Leiðarljós í skipulagsvinnu

Ég er þeirrar skoðunar að ríkisvaldið eigi að leggja fram stefnumótun í skipulagsmálum á landsvísu. Slík stefnumótun tæki til þeirrar landnýtingar sem ekki varðar eingöngu hagsmuni einstakra sveitarfélaga, heldur hagsmuni þjóðarinnar allrar. Hún yrði leiðarljós í skipulagsvinnu sveitarstjórna og myndi einnig gegna mikilvægu hlutverki við samræmingu hinna ýmsu áætlana sem samþykktar eru á Alþingi, svo sem samgönguáætlunar, náttúruverndaráætlunar, byggðaáætlunar, rammaáætlunar um verndun og nýtingu landssvæða o.s.frv. Mikilvægt er að þó að ítreka að áfram mun höfuðábyrgð og forræði á skipulagsgerð liggja hjá sveitarfélögunum.

 

Samráð við marga

Dæmi um almannahagsmuni sem landsskipulagsáætlun getur náð yfir eru samgöngukerfi, orkuöflunar- og dreifikerfi, náttúruvernd, útivist og önnur landnotkun á svæðum sem varða þjóðarhagsmuni. Þannig yrði landsskipulagsáætlun fyrir miðhálendið, svo dæmi sé tekið, stefnumörkun ríkisvaldsins um uppbyggingu á því svæði á sviði orkunýtingar, vegaframkvæmda og náttúruverndar. Jafnframt yrði í slíkri landsskipulagsáætlun sett fram heildstæð áætlun um verndun svæða á miðhálendi Íslands sem samkomulag væru um að ekki ætti að nýta til framkvæmda en sem mætti hins vegar nýta til verndar og útivistar. Landsskipulagsáætlun getur náð til landsins alls, einstakra landshluta og efnahagslögsögunnar. Gert er ráð fyrir að landskipulagsáætlun  verði unnin í mjög víðtæku og nánu samráði við sveitarfélög, hlutaðeigandi stofnanir og ráðuneyti. Jafnframt yrði hún kynnt almenningi opinberlega þannig að sem flestir geti tjáð sig um efni áætlunarinnar. 

 

Stefnumörkun á miðhálendi

Lagt er til í frumvarpinu að landsskipulagsáætlun verði lögð fram á Alþingi sem tillaga til þingsályktunar. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að fyrsta landsskipulagsáætlunin verði lögð fram á Alþingi árið 2010 og fjalli um stefnumörkun á miðhálendinu.

Gerð skipulags verður stöðugt mikilvægari þáttur umhverfisverndar. Verði frumvarp til skipulagslaga samþykkt á Alþingi fá stjórnvöld mikilvægt verkfæri í hendur til að vinna á markvissan hátt að umhverfisvernd hér á landi. 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta