Hoppa yfir valmynd
11. mars 2008 Innviðaráðuneytið

Stefna um frjálsan og opinn hugbúnað

 

Verkefnisstjórn um rafræna stjórnsýslu í forsætisráðuneyti hefur um nokkurt skeið unnið að mótun stefnu um frjálsan og opinn hugbúnað. Stuðst var meðal annars við skýrslu um opinn hugbúnað sem gerð var fyrir forsætisráðuneytið 2005, stefnur annarra þjóða og margvíslegt efni frá Evrópusambandinu. Haft var samráð við hagsmunaaðila og var stefnan síðan samþykkt í verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið. Ríkisstjórnin samþykkti stefnuna í dag 11. mars 2008.

Í stefnunni kemur fram að þess skuli gætt að gefa frjálsum og opnum hugbúnaði sömu tækifæri og séreignarhugbúnaði þegar tekin er ákvörðun um kaup á nýjum búnaði og ávallt skuli leitast við að gera sem hagstæðust innkaup.
Frjáls og opinn hugbúnaður er hugbúnaður sem byggist á forritunarkóða sem höfundar hafa valið að gera opinberan og aðgengilegan fyrir alla. Séreignarhugbúnaður er aftur á móti háður takmörkunum varðandi notkun, dreifingu og breytingar, auk þess sem hann byggist á forritunarkóða sem ekki er opinber.

Frjáls og opinn hugbúnaður er í örum vexti um allan heim og nýtur viðurkenningar sem raunhæfur kostur við val á lausnum í upplýsingatækni. Tilkoma hans hefur skapað samkeppni á markaði sem áður einkenndist af yfirburðastöðu tiltölulega fárra birgja. Mikilvægt er að stjórnvöld standi ekki í vegi fyrir þessari þróun, heldur styðji hana og geri áframhaldandi þróun mögulega. Notkun á frjálsum og opnum hugbúnaði getur minnkað bindingu stjórnvalda, fyrirtækja og almennings við einstaka birgja og þjónustuaðila og þar með stuðlað að auknu valfrelsi.

Mikil umræða hefur farið fram á alþjóðlegum vettvangi um að möguleikar á notkun frjáls og opins hugbúnaðar verði skoðaðir og nýttir og að mörkuð verði stefna þar um. Auk þess hafa komið tilmæli frá Evrópusambandinu og Norðurlandaráði um að stuðlað verði að frjálsri samkeppni í þessum efnum. Þar er hvatt til þess að opinberir aðilar beiti sér, í krafti stærðar sinnar, fyrir notkun frjáls og opins hugbúnaðar.

 

Reykjavík 11. mars 2008

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta