Unnið að sameiningu Veðurstofu og Vatnamælinga
Starfshópur sem Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra skipaði til að undirbúa sameiningu Veðurstofu Íslands og Vatnamælinga hefur skilað greinargerð til ráðherra. Í henni segir m.a. að með sameiningunni sé ekki aðeins stefnt að samrekstri núverandi verkefna, heldur einnig að því að móta hlutverk stofnunarinnar með nýjum og heildstæðum hætti, þannig að tryggt sé að starfssvið og verkefni verði samþætt með það að markmiði að efla starfsemina.
Í greinargerðinni koma fram tillögur um verkefni, rekstrarfyrirkomulag og undirbúning hinnar nýju stofnunar. Hópurinn telur t.d. að ný stofnun geti styrkt áherslur og skerpt á verkefnum sem tengjast rannsóknum og ráðgjöf vegna loftslagsbreytinga og vöktunar og kortlagningu á náttúruvá. Drög að frumvarpi til laga um stofnunina var unnið í umhverfisráðuneytinu samhliða vinnu starfshópsins.
Hópurinn starfaði undir formennsku Magnúsar Jóhannessonar, ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytisins. Auk hans sátu í starfshópunum þau Árni Snorrason, forstöðumaður Vatnamælinga, Magnús Jónsson, veðurstofustjóri, Hermann Sveinbjörnsson, sérfræðingur í umhverfisráðuneytinu, Ingibjörg Halldórsdóttir, lögfræðingur í umhverfisráðuneytinu og Þorsteinn Sæmundsson, sérfræðingur í umhverfisráðuneytinu.
Fundi starshópsins sátu einnig þeir Matthew J. Roberts fyrir hönd Starfsmannafélags Veðurstofu Íslands og Gunnar Sigurðsson fyrir hönd starfsmanna Vatnamælinga með málfrelsi og tillögurétt. Auk þess starfaði Sigurður H. Helgason, framkvæmdastjóri Stjórnhátta ehf. að verkefninu með starfshópnum.
Greinargerð starfshópsins (pdf).