Greinargerð um þróunarsamvinnu
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur hefur skilað utanríkisráðherra greinargerð um skipulag þróunarsamvinnu innan utanríkisráðuneytisins. Í greinargerðinni eru gerðar tillögur til ráðherra um nýtt stjórnskipulag innan utanríkisráðuneytisins sem byggjast á að ná heildarsýn í stefnumörkun, gæðamati og áætlanagerð um þróunarsamvinnu. Tillögurnar miða jafnframt að því að tryggja markvissa og samræmda nýtingu þeirra fjárveitinga sem til málaflokksins er ráðstafað.
Þær tillögur sem kynntar eru í greinargerðinni byggja á upplýsingasöfnun og stefnumótunarvinnu sem stóð yfir í utanríkisráðuneytinu frá júlí 2007 til janúar á þessu ári. Fjölmargir vinnu- og umræðufundir voru haldnir og tæplega 100 viðtöl tekin við á sjötta tug einstaklinga, þar sem rætt var við starfsmenn í þróunarsamvinnu innan utanríkisþjónustunnar, fulltrúa frjálsra félagasamtaka og sérfræðinga bæði innan lands sem utan. Skoðunin beindist að fyrirkomulagi þróunarsamvinnunnar innan utanríkisþjónustunnar hér á landi og miðast tillögurnar fyrst og fremst við að skýra stöðu málaflokksins innan stjórnsýslunnar. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að styrkja myndun þekkingarsamfélags í þróunarmálum hér á landi til að tryggja aðgang stjórnsýslunnar að sérfræðilegri þekkingu byggðri á menntun og reynslu af þróunarsamvinnu Íslands.
Tillögurnar í greinargerðinni liggja m.a. til grundvallar frumvarpi til laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, sem ráðherra mælti fyrir í febrúar sl. og unnið var að í ráðuneytinu í vetur. Frumvarpið skapar lagaramma utan um þátttöku Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu í heild sinni, tryggir faglegan undirbúning að ráðstöfun framlaga Íslands og að stjórnkerfi þróunarsamvinnu verði skilvirkt og öflugt. Er það nú til meðferðar á Alþingi og er gert ráð fyrir að það verði að lögum nú á vorþingi.
Greinargerðina má finna hér.