Skýrsla OECD um skattlagningu launa
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 13. mars 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Í nýrri skýrslu OECD um skattlagningu launa (Taxing Wages 2007) eru kynntar niðurstöður um þróun skattbyrði einstakra tekjuhópa og skattskriðs (e. fiscal drag).
Skattskrið, sem er tæknilegt og flókið fyrirbæri, er skilgreint sem þau áhrif sem skatttekjur verða fyrir í stighækkandi skattkerfi af völdum breytinga á tekjum. Sérstaklega er horft til þess að hve miklu leyti skattkerfisbreyting skilar sér til einstakra tekjuhópa. Í fréttatilkynningu OECD er sérstaklega horft til þess að hve miklu leyti skattkerfisbreyting skilar sér til einstakra tekjuhópa. Í því sambandi er bent á að Ísland er í hópi landa þar sem barnafólk greiddi hærra hlutfall tekna í skatta árið 2006 en skattkerfisbreytingar gáfu til kynna. Ekki er auðvelt að túlka niðurstöður svo flókinna útreikninga í alþjóðlegum samanburði þar sem ekki er tekið tillit til mismunandi uppbyggingar skattkerfa í einstökum löndum eða ólíkrar launaþróunar þeirra.
Til að útskýra það sem um er að ræða má setja greiddan tekjuskatt einstaklinga fram á einfaldan hátt:
tekjuskattur = ((tekjur*skattprósenta) – persónuafsláttur) – barnabætur
Hér er um aðeins þrengri skilgreiningu að ræða en skattafleyg þann sem OECD mælir, en þar eru launatengd gjöld launþega og vinnuveitanda tekin með.
Laun á almennum markaði hækkuðu um 50% frá árinu 2000 til 2006 en verðlag hækkaði á sama tíma um ríflega 30%. Kaupmáttur launa hækkaði verulega á tímabilinu. Skattprósenta í tekjuskatti var lækkuð úr 25,75% í 24,75% árið 2005 og í 23,75% árið 2006. Skatthlutfall í staðgreiðslu lækkaði um 1,65% á tímabilinu. Yfir tímabilið var upphæð persónuafsláttar hækkuð um 90% af þróun verðlags og lækkaði því um 9% að raungildi á tímabilinu. Frá síðustu áramótum er upphæð persónuafsláttar hækkuð til jafns við verðlag. Barnabætur með börnum yngri en 7 ára hafa vaxið að raungildi um 28% á þessu tímabili. Heildarupphæð barnabóta hefur vaxið umtalsvert.
Það sem kemur í ljós miðað við ofangreint er að það er fyrst og fremst hækkun raunlauna á tímabilinu sem hefur leitt til þess skattskriðs sem OECD mælir og lækkun persónuafsláttar að raungildi aðeins að litlu leyti. Ef tekjur hefðu haldist óbreyttar að raungildi miðað við þær breytingar sem framkvæmdar voru á skattkerfinu hefði skattbyrðin lækkað og á sú niðurstaða einnig við um barnafólk.
Vert er að huga að því að íslenska skattkerfið er með stigvaxandi (e. progressive) eiginleika þannig að aukinn kaupmáttur launa leiðir til aukinnar skattbyrði. Það er talið eðlilegt að fólk með auknar tekjur að raungildi greiði meira til rekstrar samfélagslegrar þjónustu. Við þetta má bæta að skattprósentan á Íslandi er orðin lág í alþjóðlegum samanburði. Mikilvægt er að skoða mælingar OECD á skattskriði í ofangreindu samhengi.
Þá má benda á að á ofangreindu tímabili jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann um rúm 25%. Það er vegna þess að með lækkun skattprósentunnar lækkaði hlutfall skatta í tekjum. Auknar tilfærslur til heimilanna í formi persónuafsláttar og bóta lögðust síðan við atvinnutekjur. Því hefur hagur vinnandi fólks batnað umtalsvert á tímaabilinu.
Varðandi þá fullyrðingu OECD að skattbreytingar undanfarinna ára hafi samkvæmt slíkum mælingum komið þeim tekjuhærri til góða þá er það út af fyrir sig rétt. Hátekjuskatturinn svonefndi var afnuminn til að einfalda kerfi tekjuskatta og auka framboð vinnuafls, en honum var talið fylgja óhagræði á vinnumarkaði. Í efnahagsskýrslu fyrir Ísland árið 2001 mælti OECD raunar með afnámi hátekjuskattsins þar sem viðmiðunarupphæðin hafði lækkað að raungildi með þeirri afleiðingu að vaxandi hópur fólks með sem næst meðaltekjur greiddi skattinn. Ofangreindar skattkerfisbreytingar hafa borið tilætlaðan árangur því atvinnustig á Íslandi er með því hæsta og atvinnuleysi meðþví lægsta sem er að finna hjá OECD-ríkjunum og velferð borgaranna með því mesta sem þekkist.