Heimsókn utanríkisráðherra til Afganistan
Heimsókn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra til Afganistan, sem staðið hefur síðan síðdegis á mánudag, lauk í dag með fundi hennar og Hamid Karzai, forseta landsins. Ræddu þau stöðu mála í Afganistan og lagði forsetinn áherslu á að alþjóðasamfélagið leggði Afganistan lið við að byggja upp þjóðfélagið og innviði þess að nýju, eftir áratuga eyðileggingu. Sagði Karzai Afganistan þarfnast stuðnings alþjóðaliðs ISAF til að minnsta kosti næstu tíu ára, til að tryggja stöðugleika og öryggi, byggja upp stjórnkerfi og efla menntun og þjálfun.
Í gær, þriðjudag, heimsótti utanríkisráðherra borgina Meymanah í Faryiab héraði í Norð-Vestur Afganistan, þar sem Norðmenn stýra héraðsuppbyggingarsveit sem Ísland er að hefja þátttöku í. Búist er við að verkefnin í Faryiab verði á sviði heilsugæslu og réttarumbóta. Þá sótti Ingibjörg Sólrún héraðsstjóra Faryiab, Abdul aq Shafaq, heim og ræddi aðkomu Íslands að uppbyggingu og verkefnum í héraðinu.
Síðdegis í gær hitti ráðherra Hasan Ban Ghazanfar, kvennamálaráðherra Afganistan, sem er jafnframt eini kvenráðherra landsins og aðstoðarutanríkisráðherrann Mohammad Kabir Farahi. Þá fundaði utanríkisráðherra með yfirmanni ISAF, aðstoðaryfirmanni ISAF og starfandi sendiherra Atlantshafsbandalagsins í Afganistan.
Auk ofantalinna funda hitti ráðherra Íslendingana, fjórtán talsins, sem starfa á vegum íslensku friðargæslunnar í Afganistan, fulltrúa alþjóðastofnana og félagasamtaka og hóp afganskra kvenna, m.a. þingkonur, framákonur í viðskiptalífi, hershöfðingja og forsvarskonur í mannréttinda- og kvenréttindasamtökum.
Í fylgd með ráðherra voru ráðuneytisstjóri, skrifstofustjóri íslensku friðargæslunnar og fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins auk fimm lögreglumanna frá sérsveit Ríkislögreglustjóra sem sinntu öryggismálum.