Straumhvörf styðja endurhæfingarþjónustu á Akranesi
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, undirritaði í dag samkomulag Straumhvarfa, átaksverkefnis við geðfatlaða, við Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi um stuðning við endurhæfingarþjónustu á Akranesi. Undirritun samkomulagsins fór fram í húsnæði „Endurhæfingarklúbbs fyrir öryrkja“ að Kirkjubraut 1 á Akranesi. Á sama tíma var skrifað undir samstarfssamning þeirra aðila sem að endurhæfingarklúbbnum standa. Einnig undirritaði heilbrigðisráðherra samkomulag um stuðning við endurhæfingarklúbbinn.
Straumhvörf er fimm ára verkefni félags- og tryggingamálaráðuneytisins 2006–2010 sem miðar að því að efla þjónustu við geðfatlaða.
„Endurhæfingarklúbburinn“ er tilraunaverkefni til þriggja ára, frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2010. Aðilar að verkefninu eru Akraneskaupstaður, Sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin á Akranesi, Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Vesturlandi og Akranesdeild Rauða kross Íslands.
Starfsemi klúbbsins verður byggð upp til þess að þjóna öryrkjum og mun starfsemin ekki hvað síst höfða til yngri öryrkja. Einstaklingar sem glíma við fjölþætt vandamál, svo sem félagsleg, geðræn eða líkamleg, geta leitað eftir þjónustu í klúbbnum. Einnig á fólk sem verður að breyta lífsmynstri sínu vegna veikinda, slysa eða annarra áfalla að geta fundið þar þjónustu við sitt hæfi.
Aðkoma verkefnisins Straumhvarfa byggist á því að skapa batahvetjandi stuðningsúrræði fyrir geðfatlað fólk. Markmiðið er að skapa umhverfi þar sem notendur geta haft rík áhrif á innihald og þróun þjónustunnar.
Í ávarpi sínu við athöfnina sagði ráðherra meðal annars: „Með verkefni eins og þessu er unnið að verðmætasköpun. Verðmætin felast í auknum lífsgæðum fólks sem nær tökum á eigin lífi, eykur færni sína og verður virkt í samfélaginu; kemst jafnvel út á almennan vinnumarkað eða til frekara náms. Einnig er um að ræða bein samfélagsleg verðmæti í virkjun mannauðs og vinnufúsra handa.“
Framlag Straumhvarfa til endurhæfingarþjónustunnar er 7,2 milljónir króna. Styrkurinn er veittur gegnum Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi sem mun sjá um greiðslur og einnig koma að verkefninu með ráðgjöf og eftirliti. Áætlað er að virkir notendur endurhæfingarklúbbsins geti verið allt að 70 manns og fjöldi notenda á dag á bilinu 15 til 25 manns.
Auk þessa verja Straumhvörf árin 2007 og 2008 um 40 milljónum króna til íbúðakaupa fyrir geðfatlaða og til frekari liðveislu við geðfatlaða á Vesturlandi í samstarfi við Svæðisskrifstofuna og Akraneskaupstað.