Yfirlýsing um Taívan
Ísland hefur gerst aðili að yfirlýsingu Evrópusambandsins þar sem kosningunum sem voru haldnar á Taívan 22. mars er fagnað og ítrekaður stuðningur við lýðræðisleg gildi á Taívan. Segir í yfirlýsingunni að vonast sé til þess að með nýjum stjórnvöldum á Taívan skapist tækifæri fyrir aðila beggja vegna Taívansunds til að bæta enn frekar samskipti sín í milli til hagsbóta fyrir íbúa beggja vegna sundsins. Er sú afstaða ítrekuða að Kína skuli vera eitt og lýst yfir einörðum stuðningi við friðsamlega lausn deilunnar um Taívan.
Í yfirlýsingunni er minnt á að ekki sé stuðningur við aðild Taívans að alþjóðastofnunum þar sem krafist er þátttöku fullvaldra ríkja. Sú afstaða að Kína skuli vera eitt feli engu að síður í sér áframhaldandi stuðning við hagnýta þátttöku Taívans í sérhæfðum, marghliða fundum þar sem ekki er gerð krafa um slíkt, einkum þar sem þátttaka Taívans hefur bein áhrif á íbúana og skiptir miklu máli fyrir ESB og alþjóðlega hagsmuni. Segir í yfirlýsingunni að þess sé vænst að báðir aðilar stígi ákveðin skref, meðal annars til að vekja traust, í því skyni að samþykkja og hrinda í framkvæmd áætlunum sem geri Taívan kleift að taka á markvissan hátt þátt í slíkum fundum.