Nr. 14/2008 - ársfundur Veiðimálastofnunar 2008
Fréttatilkynning frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti
Nr. 14/2008
Ársfundur Veiðimálastofnunar 2008
Í setningarávarpi ársfundar Veiðimálastofnunar 27. mars fjallaði Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, m.a. um efnahagslega þýðingu stangveiða í þjóðarbúinu og fyrirhugaðar breytingar á skipulagi og lögum er lúta að þessum málaflokki. Þá sagði ráðherra: “Lög um fiskeldi verða sameinuð í einn lagabálk, en voru áður í tveimur lagabálkum eftir því hvort um var að ræða eldi ferskvatnsfiska eða sjávarfiska. Lögum um Fiskræktarsjóð verður breytt, en áralangar deilur hafa verið um greiðslur raforkufyrirtækja í sjóðinn. Verði það frumvarp að lögum sem nú liggur fyrir, mun það styrkja sjóðinn og gera starf hans öflugra, en sjóðurinn er einkar mikilvægur við rannsóknir og uppbyggingu á veiðivötnunum. Þá verður stjórnsýsla veiðimála færð frá Matvælastofnun til Fiskistofu en sú starfsemi fer betur með starfsemi Fiskistofu, ekki síst eftir að Landbúnaðarstofnun varð að Matvælastofnun, sem var góð og þörf breyting. Á Fiskistofu verður sérstakt svið, Veiðimálasvið, sem mun hafa með höndum stjórnsýslu veiðimála og verður þessi breyting til að styrkja umsýslu starfseminnar.”
Ennfremur sé til athugunar hvort heppilegt sé að breyta rekstrarformi Veiðimálastofnunar í opinbert hlutafélag til að efla starfsemi hennar.
Þá gat ráðherra um að efnahagslegt virði stangveiða í þjóðarbúinu sé metið um 12 milljarðar króna á ári og stangveiði styðji við um 1.200 ársstörf.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu,
28. mars 2008