Tvísköttunarsamningur við Mexíkó
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 27. mars 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Undirritaður hefur verið samningur milli Íslands og Mexíkó til að komast hjá tvísköttun og nær samningurinn til tekjuskatta.
Helstu efnisatriði samningsins eru þau að samið var um 5% afdráttarskatt af arði ef félagið sem móttekur arðinn á a.m.k. 10% í félaginu sem greiðir arðinn, en í öðrum tilvikum var samið um 15% afdráttarskatt. Þá var samið um 10% afdráttarskatt af vöxtum og þóknunum.
Í sérstakri bókun sem gerð var í tengslum við samninginn er tekið fram að vextir af skiptisamningum (back-to-back loans) falli ekki undir ákvæði 2. mgr. 11. gr. Einnig er í sömu bókun ákvæði um að tvísköttunarsamningurinn komi ekki í veg fyrir að samningsríki geti nýtt sér ákvæði laga um lága eiginfjármögnun. Samkvæmt samningnum er frádráttaraðferð (credit method) beitt í því skyni að koma í veg fyrir tvísköttun.
Jafnframt er samið um upplýsingaskipti á milli landanna varðandi þá skatta sem samningurinn nær til og er ákvæðið efnislega samhljóða endurskoðaðri 26. grein OECD módelsins frá 2005. Í þeirri endurskoðun var bætt við nýrri 4. mgr. sem skyldar samningsaðila til að láta í té upplýsingar sé þess óskað þótt sá samningsaðili sem afhendir upplýsingarnar þurfi ekki sjálfur á þeim að halda í skattalegum tilgangi.
Einnig var bætt við nýrri 5. mgr. en samkvæmt henni getur samningsaðili ekki neitað að afhenda upplýsingar eingöngu vegna þess að þær séu í vörslu banka eða annarra fjármálastofnana.
Á næstu mánuðum munu stjórnvöld vinna að fullgildingu samningsins í báðum samningsríkjum. Vonast er til að samningurinn geti komið til framkvæmda 1. janúar 2009.