Hoppa yfir valmynd
31. mars 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundur Öldrunarfræðafélags Íslands

Góðir fundarmenn og félagar í Öldrunarfræðafélagi Íslands.

Ég þakka stjórn félagsins fyrir að bjóða mér á aðalfund félagsins sem er óvenju veglegur að þessu sinni í tilefni 35 ára afmælis þess. Ég nota auðvitað tækifærið og óska afmælisbarninu til hamingju.

Það má segja að 35 ár séu ekki hár aldur. Ég þykist þó vita að margt hafi drifið á daga afmælisbarnsins á þessum árum því 35 ár í sögu velferðarmála hér á landi er langur tími og margt hefur áunnist í málefnum aldraðra á tímabilinu. Markmið félagsins samkvæmt lögum þess eru skýr, þ.e. að styðja rannsóknir er varða öldrun, öldrunarsjúkdóma og félagsleg málefni eldra fólks, að vinna að fræðslu um þessi efni meðal fagaðila og almennings og að vera ráðgefandi um málefni eldri einstaklinga við opinbera aðila og aðra sem láta sig málefni aldraðra varða.

Þá veit ég einnig að norrænt samstarf hefur verið ofarlega á dagskrá Öldrunarfræðafélagsins sem er stofnaðili að Nordisk gerontologisk forening og einnig samstarf við önnur hliðstæð fjölþjóðleg samtök. Slíkt samstarf tel ég mikils virði þar sem við getum tvímælalaust leitað í smiðju annarra þjóða um hugmyndir og fyrirmyndir að öldrunarþjónustu og uppbyggingu hennar.

Eins og ykkur er kunnugt um urðu allmiklar breytingar á skipulagi öldrunarmála um síðustu áramót. Heildarábyrgð málaflokksins fluttist til félags- og tryggingamálaráðuneytisins frá heilbrigðisráðuneytinu og þar með heildarlöggjöf um málefni aldraðra og framtíðaruppbygging og stefnumótun á þessu mikilvæga og vaxandi sviði. Heilbrigðisþjónusta við aldraða er eftir sem áður á ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins en í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er skýrt kveðið á um að stefnt skuli að því að flytja ábyrgð á lögbundinni þjónustu við aldraða frá ríki til sveitarfélaga. Þar er svo sannarlega verk að vinna og nú er unnið að því á fullri ferð að undirbúa frekari ákvarðanatöku á því sviði. Verkefnisstjórn og undirnefndir með aðkomu ríkis, sveitarfélaga og hagsmunasamtaka hafa nú fengið sérfræðinga til liðs við sig sem ætlað er að vinna þjónustumat og undirbyggja frekari tillögugerð.

Stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum aldraðra er vegvísir, svo sem varðandi uppbyggingu 400 hjúkrunarrýma. Hlutverk mitt sem félags- og tryggingamálaráðherra er að skipuleggja vegferðina, þ.e. að útfæra stefnuna og hvernig skuli staðið að framkvæmd hennar í þeim málum sem heyra undir ráðuneyti mitt. Í því starfi legg ég mikið upp úr nánu samstarfi við þá sem best þekkja til málaflokksins og þeirra sem þurfa á þjónustu að halda. Það verður alltaf að hafa hugfast að uppbygging öldrunarþjónustu, hvort sem um er að ræða uppbyggingu í formi steinsteypu eða skipulags á þjónustukerfi er ekki aðeins málefni nútímans heldur einnig framtíðarinnar. Því er framsýni og víðsýni nauðsynleg svo ekki verði ráðist í framkvæmdir og breytingar sem verða úreltar eftir fáein ár eða vinna gegn meginmarkmiðum stefnunnar til lengri tíma litið. Ég fékk því til liðs við mig hóp fólks sem hefur nú skilað mér tillögum að stefnumótun sem ég er nú að fara yfir og hef meðal annars sent samstarfsnefnd um málefni aldraðra til umsagnar.

Ég mun á næstunni kynna stefnumótunina og mína sýn á þá uppbyggingu sem framundan er í málefnum aldraðra. Í þeim tillögum sem kynntar hafa verið er mikill samhljómur við þá umræðu sem uppi hefur verið meðal þeirra sem best til þekkja á þessu sviði. Þar er lögð áhersla á að samþætt og fjölbreytt einstaklingsbundin þjónusta verði byggð upp í hverju sveitarfélagi í þágu eldri borgara og þá jafnvel í mörgum smærri kjörnum innan sveitarfélaga. Jafnframt er kveðið á um nýjar áherslur í öruggri sjálfstæðri búsetu og nýjar áherslur í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Byggt er á því að þjónusta við aldraða verði í framtíðinni veitt á grundvelli einstaklingsbundinnar þarfar og síðast en ekki síst er þar kveðið á um bætta upplýsingaþjónustu við aldraða um þá þjónustu og þau úrræði sem liggja fyrir á hverjum stað á hverjum tíma. Allt eru þetta grundvallaratriði sem ég vil vinna að ásamt mörgu öðru.

Ég tel að í samfélaginu ríki almennt sameiginlegur skilningur á því hverjar skuli vera megináherslur í þjónustu við aldraða. Rauði þráðurinn er að styðja aldraða til sjálfstæðrar búsetu á eigin heimili sem lengst með viðeigandi stuðningi í samræmi við þarfir hvers og eins. Eins tel ég almennt viðurkennt að hverfa beri frá því fyrirkomulagi á stofnanaþjónustu við aldraða sem hingað til hefur tíðkast. Þótt vel takist til að stórefla þjónustu við aldraða í heimahúsum munu ávallt verða einhverjir sem þurfa meiri hjúkrun og umönnun að staðaldri en unnt er að veita á einkaheimilum fólks. Þeirra þörfum þarf að mæta á öðrum forsendum en hingað til og gera hjúkrunarheimili þannig úr garði að þau uppfylli eins og kostur er þær kröfur sem við öll gerum til heimilislegra aðstæðna og réttinum til persónufrelsis og friðhelgi einkalífs.

Jafnframt því að hraða uppbyggingu 400 nýrra hjúkrunarrýma, og þá á þeim forsendum sem ég nefndi hér að framan, er eitt mikilvægra verkefna að fækka fjölbýlum á hjúkrunarheimilum og færa aðstæður til nútímalegs horfs. Í árslok 2006 voru tæplega 850 aldraðir í fjölbýlum á hjúkrunarheimilum, flestir í tvíbýli.

Til að mæta fækkun vegna breytinganna er þörf fyrir rúm 400 hjúkrunarrými til viðbótar. Gróflega áætlað nemur kostnaður við breytingar fjölbýla í einbýli og áform um fjölgun hjúkrunarrýma allt að 17 milljörðum króna. Til að takast á við þetta stóra verkefni er nauðsynlegt að nota fjölbreyttari fjármögnunarleiðir en hingað til hefur verið gert. Því hef ég ákveðið að nýta lagaheimild til að fjármagna framkvæmdir með leigu samhliða því að skoða enn fleiri leiðir til fjármögnunar.

Við uppbyggingu hjúkrunarrýma þarf að huga sérstaklega að þörfum heilabilaðra. Samkvæmt hjúkrunarmælingum á hjúkrunarheimilum eru tæp 65% aldraðra með heilabilun af einhverju tagi og 24% þess hóps eru með Alzheimer. Ekki er þörf fyrir hjúkrunarrými á sérstökum heilabilunareiningum fyrir nema hluta þessa hóps en gera má ráð fyrir að algjört lágmark sérstakra hjúkrunarrýma fyrir heilabilaða sé um 20% af heildarfjölda rýma.

Á síðustu árum hefur verið unnið að því að fjölga dagvistarrýmum fyrir aldraða, en með aukinni áherslu á stuðning við aldraða til að búa sem lengst heima eykst þörf fyrir þetta úrræði. Ég vil halda áfram á þessari braut og leggja í verkefnið aukinn kraft, jafnframt því að leggja aukna áherslu á möguleika til hvíldarinnlagna með viðeigandi þjálfun og endurhæfingu. Ef miðað er við að þörf á dagvistarrýmum fyrir heilabilaða sé um það bil eitt rými fyrir heilabilaða á hverja 165 íbúa 65 ára og eldri þurfum við að fjölga dagvistarrýmum í um 260 en í dag eru þau um 150 talsins.

Við eigum að gefa heildarmyndinni gaum og tryggja eðlilegt flæði þjónustu út frá mismunandi þörfum og meðal annars líta sérstaklega til þjónustu við heilabilaða en eins og þið þekkið mörg hér eru hjúkrunarrými sérstaklega ætluð heilabiluðum nú um 350. Hvíldarinnlagnir er annað úrræði sem við finnum fyrir sívaxandi sókn í og er það í samræmi við aukin ferðalög stórfjölskyldunnar sem nú er orðinn sjálfsagður hluti af daglegu lífi okkar flestra. Öllu þessu ber okkur skylda til að mæta.

Þá er einnig margt sem við þurfum að breyta frá því sem nú er, svo sem greiðslufyrirkomulag fyrir það sem nú kallast dvalar- og hjúkrunarrými þannig að það sé skýrt hvaða þjónustu fólki er ætlað að greiða fyrir og að innheimta þess kostnaðar byggist á því að fólk fari sjálft með fjárræði sitt. Jafnframt tel ég nauðsynlegt að endurskoða svokallaða vasapeninga til vistmanna, en það fyrirkomulag er löngu úrelt og stríðir gegn sjálfstæði fólks sem dvelur á stofnunum fyrir aldraða.

Ég sagðist áðan telja að eining ríkti í samfélaginu um megináherslur í þjónustu við aldraða. Þá spyr fólk eflaust, hvað tefji Orminn langa og hvers vegna þessum málum sé þá ekki betur fyrir komið en raun ber vitni? Svarið tel ég liggja í skipulagi málaflokksins þar sem að ábyrgð hefur hingað til verið dreifð og í ýmsum efnum óskýr. Þar sem ekki hefur farið saman ábyrgð á þjónustu gagnvart einstaklingum, ábyrgð á uppbyggingu ólíkra þjónustuúrræða og fjárhagsleg ábyrgð á því að nýta ávallt þau úrræði sem best þjóna þörfum hvers og eins og eru hagkvæmust fyrir samfélagið í heild.

Hér má nefna sem dæmi að sveitarfélögin bera ábyrgð á uppbyggingu þjónustuíbúða fyrir aldraða og einnig á félagsþjónustu, til dæmis heimaþjónustu, en ríkið er ábyrgt fyrir heimahjúkrun og stofnanaþjónustu. Fjárhagslega njóta sveitarfélögin ekki ávinnings af því að byggja þjónustu sína þannig upp að hún styðji aldraða til þess að búa sem lengst í sjálfstæðri búsetu. Þvert á móti leggur það aukinn kostnað á herðar þeirra en sparar aftur á móti útgjöld ríkisins sem minna þarf þá að leggja til stofnanaþjónustunnar. Það segir sig sjálft að svona fyrirkomulag hvetur til notkunar dýrustu úrræðanna sem er þjóðhagslega óhagkvæmt. Það sem verra er þá stríðir það gegn yfirlýstri stefnu og almennum vilja þess efnis að öldruðum skuli gert kleift að búa sem lengst á eigin heimili með viðeigandi stuðningi og þjónustu.

Eins og ég sagði áðan er stefna ríkisstjórnarinnar sú að færa ábyrgð á lögbundinni þjónustu við aldraða til sveitarfélaganna. Við höfum öðlast nokkra reynslu af slíku fyrirkomulagi með samningum við Akureyrarkaupstað og Sveitarfélagið Hornafjörð.

Þar bera sveitarfélögin ábyrgð á allri öldrunarþjónustu og jafnframt á heilsugæslunni, en stór þáttur í starfi heilsugæslustöðva er þjónusta við aldraða, einkum heimahjúkrun. Með þessu móti hefur tekist að skapa órofa þjónustukeðju sem skapar heildarsýn yfir þjónustuþörfina á viðkomandi svæði og eins gerir þetta fyrirkomulag betur kleift en ella að veita einstaklingum þjónustu í samræmi við þarfir hvers og eins.

Með flutningi lögbundinnar þjónustu við aldraða til sveitarfélaga verður hlutverk félags- og tryggingamálaráðuneytisins skýrara og mun þá fyrst og fremst snúast um að móta stefnu í málaflokknum, skilgreina faglegar kröfur til þjónustunnar í lögum og reglugerðum og sjá til þess að eftir þeim sé farið.

Það er margt í þjónustu við aldraða sem við þurfum að bæta og ég tel að þær skipulagsbreytingar sem ég hef rætt um hér séu grundvallaratriði í þeim efnum. Þessi vegferð er rétt að hefjast og spennandi tímar framundan. Ég ætla ekki að fjalla hér um einstaka þjónustuþætti við aldraða þar sem úrbóta er þörf, en dreg ekki dul á að á heildina litið þarf jafnt að auka framboð á þjónustu sem er til staðar og að auka fjölbreytni úrræða.

Ég legg hins vegar áherslu á að við mótun og framkvæmd stefnu í málefnum aldraðra þarf ávallt að tryggja að almennt mannréttindi séu í heiðri þörf. Þetta ætti ekki að þurfa að tíunda en ég geri það samt þar sem mannréttindi eru afar viðkvæm þegar fjallað er um skipulag þjónustu og úrræða fyrir þá sem vegna aðstæðna þurfa á sérstökum stuðningi að halda. Mannréttindi sem sérstaklega þarf að gæta að við þær aðstæður eru réttur til persónufrelsis, friðhelgi einkalífsins, réttur til fjölskyldu, búsetu og eigin heimilis, réttur til atvinnu og til aðgengis og þátttöku í samfélaginu, réttur til framfærslu, réttur til heilbrigðis- og félagsþjónustu og jafnframt bann við ómannlegri og vanvirðandi meðferð. Á þessu mun ég byggja stefnu mína og aðgerðir sem félags- og tryggingamálaráðherra.

Að lokum vil ég segja við ykkur sem myndið Öldrunarfræðifélag Ísland að eftir ykkar störfum er svo sannarlega tekið, bæði innan félagsins og á vettvangi þjónustu við aldraða. Ég hef átt þess kost að fylgjast með óeigingjörnu starfi ykkar sem hafið kosið ykkur þennan vettvang og vil segja það hér að ég ber mikla virðingu fyrir framlagi ykkar.

Ég deili hins vegar með ykkur og samfélaginu öllu áhyggjum af skorti á fólki í umönnunarstörfum og heiti því að gera það sem í mínu valdi stendur til þess að snúa þeirri þróun við. Við þurfum einfaldlega að beita öllum hugsanlegum úrræðum til þess að gera þessi störf eftirsóknarverð. Getið þið nefnt mér eitthvað mikilvægara samfélagslegt verkefni en að annast þjónustu við eldri borgara, hvort sem þeir þarfnast þjónustu í hjúkrunarrýmum eða öðrum úrræðum? Ég á erfitt með að benda á eitthvað mikilvægara nema ef vera skyldi menntun barna okkar. Nei, ágætu gestir. Við eigum að byggja upp þjónustu af metnaði og framsýni og við eigum að vera stolt af því að vinna við þjónustu við aldraða, þið um land allt og við með stefnumótun og stuðningi úr ráðuneytinu.

Ég þakka aftur fyrir að fá tækifæri til að segja nokkur orð hér í dag og óska Öldrunarfræðafélagi Íslands enn og aftur til hamingju með daginn.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta