Yfirlýsing um Hvíta-Rússland
Íslensk stjórnvöld taka undir yfirlýsingu Evrópusambandsins þar sem lýst er miklum vonbrigðum vegna handtöku þátttakenda í friðsamlegum mótmælum, sem fram fóru í Minsk og fleiri borgum Hvíta-Rússlands í síðustu viku. Voru mótmælin í tilefni óopinbers hátíðadags stjórnarandstöðunnar í landinu, svokallaðs dags frelsis. Fordæmir yfirlýsingin að hvítrússnesk stjórnvöld skyldu beita ofbeldi til að leysa mótmælin upp en þau höfðu áður gefið leyfi fyrir þeim. Er skorað á stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi að láta þá sem handteknir voru, lausa þegar í stað og fella niður ákærur á hendur þeim.
Í yfirlýsingunni segir að ESB hafi ítrekað lýst vilja sínum til að hefja bein samskipti við Hvíta-Rússland að uppfylltum vissum skilyrðum. Hafi ákvörðun yfirvalda að láta fjölda pólitískra fanga lausa nýlega, verið skref í rétta átt. Kallar yfirlýsingin eftir því að skrefið verði stigið til fulls og Aliaksandr Kazulin, fyrrum forsetaframbjóðandi, látinn laus úr haldi, en hann hefur setið í fangelsi frá því í mars 2006.
Segir í yfirlýsingunni að stjórnvöldum í Hvíta-Rússlandi beri að láta af ofsóknum á hendur meðlima frjálsra félagasamtaka og blaðamanna, en í yfirlýsingunni er lýst sérstökum áhyggjum af handtöku blaðamanna, innlendra sem erlendra, í kjölfar áðurnefndra mótmæla, auk nýlegrar brottvísunar sendiherra Bandaríkjanna úr landi.