Hoppa yfir valmynd
2. apríl 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ráðstefnu slökkviliðsstjóra

Ágætu slökkviliðsstjórar og aðrir áheyrendur

Það er mér mikil ánægja að fá að vera hér með ykkur í dag til að setja árlega ráðstefnu slökkviliðsstjóra á Íslandi.

Í febrúar lagði ég fram á Alþingi tvö lagafrumvörp sem munu hafa mikil áhrif á lagalegt starfsumhverfi slökkviliðsstjóra, en þar á ég við frumvarp til laga um mannvirki og frumvarp til laga um breytingu á lögum um brunavarnir.

Í frumvarpi til laga um mannvirki er lagt er til að sett verði á fót Byggingarstofnun, sem hafi yfirumsjón með stjórnsýslu mannvirkjamála, þar með talið þeim verkefnum sem Brunamálastofnun sinnir nú. Áfram er gert ráð fyrir að stjórnsýsluleg ábyrgð á beinu eftirliti með byggingu mannvirkja verði í höndum byggingarfulltrúa sveitarfélaganna en að eitt af meginverkefnum Byggingarstofnunar verði að tryggja samræmt byggingaeftirlit um allt land. Svipuðu hlutverki hefur Brunamálastofnun einmitt sinnt hvað brunamál snertir. Ef og þegar þetta frumvarp verður að lögum, en ég vonast til að svo verði sem fyrst, mun Brunamálastofnun verða lögð niður eða réttara sagt verkefni hennar færð undir Byggingarstofnun og ábyrgð á framkvæmd byggingarmála færð frá Skipulagsstofnun til Byggingarstofnunar.

Gert er ráð fyrir að allt byggingareftirlit verði framkvæmt af faggiltum aðila í samræmi við ákvæði skoðunarhandbóka sem Byggingarstofnun býr til. Í frumvarpinu eru tiltekin þau hæfnisskilyrði sem aðilar þurfa að uppfylla til að geta öðlast faggildingu og er gert ráð fyrir að þau sé misströng eftir umfangi mannvirkjagerðarinnar.

Hvað varðar frumvarp til laga um breytingu á lögum um brunavarnir má segja að í frumvarpinu séu í fyrsta lagi lagðar til breytingar sem nauðsynlegt er að gera vegna frumvarps til laga um mannvirki. Einnig eru lagðar til nokkrar breytingar til viðbótar sem æskilegt er talið að gerðar verði á lögum um brunavarnir í ljósi reynslu þeirra sex ára sem lögin hafa verið í gildi.

Meðal annarra breytinga má nefna að lagt er til að björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum verði eitt af lögbundnum hlutverkum slökkviliða. Í meira en áratug hafa langflest slökkvilið landsins sinnt þessu verkefni án lagaskyldu og því mjög brýnt að binda þetta hlutverk slökkviliða í lög. Með því er tryggt að þjónustan sé fyrir hendi á öllu landinu og hún uppfylli tilteknar lágmarkskröfur. Ljóst er að sveitarfélögin verða fyrir vissum kostnaði vegna þessa verkefnis, en Brunamálastofnun vann kostnaðarmat vegna verkefnisins í náinni samvinnu við Félag slökkviliðsstjóra á Íslandi.

Önnur breyting sem lögð er til er að ákvæðum um slysatryggingu slökkviliðsmanna verði breytt og kveðið á um að þeir njóti sambærilegs réttar til bóta og aðrar starfsstéttir sem sinna hættulegum störfum, svo sem lögreglumenn og sjómenn. Þannig skuli bætur vegna slysa í starfi ákvarðaðar samkvæmt skaðabótalögum. Það getur nefnilega skipt tjónþola verulegu máli hvort bætur eru reiknaðar út frá ákvæðum skaðabótalaga eða hvort hann fær greiddar bætur sem miðast við tiltekna fyrir fram ákveðna upphæð samkvæmt ákvæðum kjarasamnings og skilmálum vátryggingar. Yfirleitt bæta greiðslur úr hefðbundinni slysatryggingu launþega samkvæmt kjarasamningum ekki nema hluta af raunverulegu tjóni launþegans. Talið er eðlilegt og sanngjarnt með tilliti til eðlis starfa slökkviliðsmanna sem innt eru af hendi í almannaþágu og þeirrar hættu sem störfunum fylgja að þeim séu tryggðar fullar bætur verði þeir fyrir slysi í starfi.

Einnig er lagt til að lögfest verði að slökkviliðsmenn þurfi að standast læknisskoðun til að mega stunda reykköfun. Í undirbúningi er endurskoðun á reglugerð um reykköfun og hefur verið um það rætt að nauðsynlegt sé að lögfesta það verklag, sem mörg slökkvilið hafa tekið upp, að skylda starfsmenn sína til að standast læknisskoðun áður en þeim er heimilt að stunda reykköfun. Reykköfun er hættulegt og erfitt starf sem einungis hraust og vel þjálfað fólk er fært um að sinna. Þess vegna er talið nauðsynlegt að krefjast reglubundinnar læknisskoðunar.

Ég hef hér einungis nefnt stuttlega nokkrar þær helstu breytingar sem vænta má vegna þeirra frumvarpa sem ég lagði fram á Alþingi í febrúar, en Ingibjörg Halldórsdóttir, lögfræðingur í umhverfisráðuneytinu, mun gera ítarlega grein fyrir þessum tveimur frumvörpum í fyrirlestri sínum í fyrramálið kl. 9.

Brunamálastofnun tók formlega til starfa þann 1. janúar árið 1970 og þetta er því 38. starfsár stofnunarinnar. Þótt fyrirhugað sé að stofnunin verði lögð niður í núverandi mynd er gert ráð fyrir að starfsemin haldi að miklu leyti óbreytt áfram undir merkjum nýrrar stofnunar, Byggingarstofnunar, sem hins vegar er ætlað hafa mun víðtækara hlutverk. Þannig mun skapast sterkari og stærri stofnun, og í minum huga leikur ekki nokkur vafi á því að sú stofnun mun hafa enn meiri burði til að standa vel að brunamálum í landinu og muni reynast slökkiviliðsstjórum landsins enn sterkari bakhjarl en nú er.

Þegar skoðaðar eru tölur um tjón af völdum eldsvoða á Íslandi og tölur bornar saman við það sem gerist og gengur í nágrannalöndum okkar, kemur í ljós að manntjón af völdum eldsvoða eru um helmingi minni á íbúa hér á landi en í nágrannalöndunum. Það sama gildir um fjárhagslegt tjón vegna eldsvoða. Ég tel því óhætt að fullyrða að slökkviliðin í landinu eru almennt að standa sig vel og að slökkviliðsstjórar séu að sinna sínu starfi með prýði. Þegnarnir og atvinnulífið njóta góðs af þessum störfum.

Að lokum vona ég að ráðstefnudagarnir tveir muni reynast ykkur lærdómsríkir og vil óska ykkur farsældar í hinum mikilvægu störfum ykkar í þágu öryggis fólksins í landinu.

Með þessum orðum segi ég Ráðstefnu slökkviliðsstjóra 2008 setta.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta