Hoppa yfir valmynd
2. apríl 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Hagvöxtur á mann

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 27. mars 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Hagfræðingar beina gjarnan sjónum sínum að hagvexti til að mæla velgengni þjóðarbúskaparins.

Mælingar á hagvexti í heild taka hins vegar ekki sérstaklega tillit til íbúaþróunar. Þegar tekið er tillit til mannfjölgunar fæst hagvöxtur á mann sem er talinn betri mælikvarði á þróun lífskjara einstaklinga.

Frá 1980 til 2007 óx landsframleiðslan í heild um 125% og mannfjöldinn um ríflega þriðjung, eða úr 228.161 í 311.296 manns. Landsframleiðslan óx því um 65% á mann. Í meðfylgjandi töflu má sjá meðaltal árlegs hagvaxtar í heild og á mann. Vöxturinn hefur verið ærið mismunandi eftir tímabilum.

VLF og mannfjöldi, árlegur meðalvöxtur, %

Árabil
VLF
VLF á mann
Mannfjöldi
1980-1985
2,3
1,2
1,1
1985-1990
3,2
2,1
1,1
1990-1995
0,3
-0,7
1,0
1995-2000
4,9
3,8
1,0
2000-2005
4,3
3,2
1,0
2006-2007
4,1
1,5
2,6

Á fyrri helmingi níunda áratugarins var hagvöxtur hægur en jókst á síðari helmingnum. Hagvöxtur á mann þróaðist á svipaðan hátt, en var minni en hagvöxtur í heild vegna mannfjölgunar. Fyrri helmingur tíunda áratugarins var erfiður með svo til engum hagvexti og samdrætti í vexti landsframleiðslu á mann að meðaltali um 0,7% á ári.

Á síðari helmingi síðasta áratugar lifnaði hins vegar yfir efnahagslífinu og var hagvöxtur að meðaltali nær 5% þau ár. Hagvöxtur á mann nam þá um 3,8% að meðaltali. Þótt hagvöxtur væri lítill rétt eftir aldamótin var hann mjög mikill árin 2004 og 2005 og var því að meðaltali um 4,3% á fyrri helming yfirstandandi áratugar, um 3,2% á mann.

Hagvöxtur í heild hefur verið áþekkur undanfarin tvö ár, um 4,1%, en mun minni á mann, 1,5%. Eins og sjá má þróaðist mannfjöldin nokkuð jafnt frá 1980 til 2005 eða um 1% á ári að meðaltali. Hin síðari ár hefur aukningin hinsvegar verið mun meiri og hagvöxtur á mann því minni sem því nemur sérstaklega undanfarin tvö ár. Aukningin stafar fyrst og fremst af því að aðstreymi fólks til landsins hefur verið vel umfram brottflutning í tenglsum við mikla eftirspurn eftir vinnuafli.

Rétt er að hafa fyrirvara á því að sá hagvöxtur á mann sem kemur fram í nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar fyrir árið 2007 kann að breytast þegar fyllri upplýsingar liggja til grundvallar, en nýjar bráðabirgðatölur fyrir það ár verða birtar í september.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta