Framkvæmdaætlun í málefnum innflytjenda
Félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sem samþykkt er af ríkisstjórninni. Áætlunin er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.
Félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, fól innflytjendaráði þann 13. ágúst síðastliðinn að semja framkvæmdaáætlun um málefni innflytjenda í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og samþykkta stefnu um aðlögun innflytjenda.
Öll ráðuneyti stjórnarráðsins, Samband íslenskra sveitarfélaga og fjölmargir aðrir hafa komið að vinnslu áætlunarinnar. Meðal annars var byggt á upplýsingum og tillögum sem fram komu á opnu málþingi innflytjendaráðs um málefni innflytjenda sem haldið var í janúar síðastliðnum. Hinn 26. mars síðastliðinn afgreiddi innflytjendaráð tillögu sína um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda til félags- og tryggingamálaráðherra.
Þingsályktunartillagan byggir á stefnumörkun í 16 liðum sem hver um sig felur í sér eina eða fleiri aðgerðir. Meðal helstu verkefna áætlunarinnar eru:
- Að samin verði löggjöf um aðlögun innflytjenda sem meðal annars kveði á um atriði sem almenn löggjöf á einstökum sviðum tekur ekki til og móti stjórnkerfi innflytjendamála.
- Að innflytjendur á vinnumarkaði njóti sömu kjara, réttinda og vinnuverndar og aðrir.
- Að upplýsingaöflun, rannsóknir um innflytjendamál og miðlun upplýsinga til innflytjenda verði efld.
- Að skráningar dvalar- og atvinnuleyfa verði einfaldaðar og samræmdar.
- Að réttur til túlkaþjónustu verði skýrður.
- Að fyrirmyndir að móttökuáætlunum sveitarfélaga verði samdar og hlutverk ríkis og sveitarfélaga í málaflokknum skýrð.
- Að mat og viðurkenning á erlendri starfsmenntun og námi verði einfaldað.
- Að efnt verði til átaks gegn fordómum og mismunun og fordómafræðsla aukin.
- Að íslenskukennsla og samfélagsfræðsla verði efld.
Auk þess eru tilgreindar fjölmargar aðgerðir á sviði einstakra ráðuneyta og stofnana sem ítarlega er fjallað um í athugasemdum með tillögunni.
Stjórnvöld munu leitast við að hafa sem víðtækast samstarf við samfélag innflytjenda, félagasamtök, sjálfseignarstofnanir og atvinnulíf um framkvæmdina og nýta þannig þá sérþekkingu sem myndast hefur um málefni innflytjenda á margvíslegum vettvangi, svo sem innan Rauða kross Íslands og Alþjóðahúss.
Gert er ráð fyrir framkvæmdaáætlunin verði endurskoðuð að tveimur árum liðnum í kjölfar útkomu framvinduskýrslu um árangur hennar og að þá verði ný áætlun til fjögurra ára lögð fyrir Alþingi.
Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda (PDF, 302KB)