Ávarp umhverfisráðherra við endurreisn Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða
Kæru félagar og vinir.
Það er mér einstakur heiður og ánægja að vera með ykkur í dag og taka þátt í endurreisn Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða. Samtaka sem fyrir hartnær fjórum áratugum spruttu úr þeim frjóa jarðvegi hugsjóna og menningar sem var þá, og er enn, undirstaða mannlífs á Vestfjörðum. Og þá eins og nú var hugsað stórt. Náttúruverndarsamtök Vestfjarða voru í bernsku í senn staðbundin og alþjóðleg. Þau áttu sér rætur í alþjóðlegri vakningu sjöunda áratugarins um ástand jarðarinnar og auðlinda hennar, þau létu sig það ástand varða og tengdust hinni alþjóðlegu náttúruverndarhreyfingu sterkum böndum, m.a. í gengum Worldwatch Institute. Nærumhverfið var ekki síður viðfangsefni – samtökin áttu ríkan þátt í friðlýsingu Hornstranda og beittu sér fyrir skráningu náttúruminja á Vestfjörðum. Náttúruverndarsamtök Vestfjarða voru lýðræðisleg samtök sem löðuðu að sér virka og áhugasama félaga hvaðanæva af Vestfjörðum, þau gáfu út tímaritið Kaldbak og héldu uppi öflugu starfi allan ársins hring. Fyrir tæpum tuttugu árum lögðust þau í dvala.
En nú skal verða breyting þar á. Í dag verða samtökin endurreist og er það mikið fagnaðarefni. Því staðreyndin er sú að ef okkur á að takast að verja íslenska náttúru, hlúa að henni og jafna stöðu hennar gagnvart hagsmunum stóriðju og auðlindagræðgi þurfum við öll að leggjast á rétta sveif. Völdin og áhrifin liggja hjá okkur – fólkinu í landinu – til að upplýsa umræðuna, umbylta henni og snúa þróuninni við. Við megum ekki láta kúga okkur til þagnar, þvinga upp á okkur samviskubiti fyrir að taka ekki undir hugmyndir um sovéskar heildarlausnir í atvinnumálum. Við eigum að bera höfuðið hátt, hafna hinu úrelta gráa hagkerfi og þoka okkur hratt og örugglega inn í það græna. Í því liggja ekkert nema ný tækifæri.
Verkefnin eru ærin. Ég hef sagt það oft, og ég segi það enn og aftur: náttúran hefur of lengi átt undir högg að sækja. Eins og dæmin sanna er staða hennar í íslenskri löggjöf og stjórnsýslu veik og skilningur á verðmæti hennar of lítill, bæði meðal ráðamanna og almennings. Hún þarfnast sárlega stuðnings í samtökum eins og þeim sem hér er verið að endurreisa, hún þarfnast talsmanna um allt land, í hverjum bæ og í hverri sveit.
Því það eru ekki bara áhrifin, heldur einnig valdið, valdið til ákvarðanatöku um nýtingu og vernd landsins gæða, sem liggur að miklu leyti hjá fólkinu í landinu, íbúa hinna ýmsu sveitarfélaga. Skipulagsvaldið er í höndum sveitarstjórnanna. Þar eru allar veigamestu ákvarðanirnar um landnýtingu og nýtingu auðlinda teknar. Það eru sveitarstjórnir sem marka atvinnustefnuna á sínu svæði, það eru sveitarstjórnir sem ákvarða staðsetningu tiltekinnar atvinnustarfsemi, og það eru sveitarstjórnir sem veita fyrirtækjum byggingar- og framkvæmdaleyfi. Við getum haft á því ýmsar skoðanir, en eins og stjórnkerfið er núna hefur ríkisvaldið afar takmarkað um það að segja hvort og hvar uppbygging stóriðju á sér stað, svo dæmi sé nefnt. Hlutverk ríkisvaldsins er að marka uppbyggingu slíkrar atvinnustarfsemi ákveðinn ramma, sjá til þess að ákvarðanir um uppbyggingu hennar séu upplýstar og að hún valdi náttúru landsins sem minnstum skaða. Það er líka hlutverk ríkisvaldsins að styrkja grunngerð samfélagsins, meginstoðir þess eins og menntun, fjarskipti og samgöngur, og þar með og skapa grundvöll fyrir fjölbreytni og grósku í uppbyggingu atvinnutækifæra. En hvorki löggjafarsamkoman né ríkisstjórnin gefa grænt eða rautt ljós á uppbyggingu tiltekinnar tegundar atvinnustarfsemi. Það ljós er gefið heima í héraði, og þar eigum við íbúarnir að beita áhrifum okkar, með atkvæðum okkar í kosningum og með virkri þátttöku í þjóðfélagsumræðunni.
Tækifærin sem felast í hinu græna hagkerfi eru mörg, fjölbreytt og spennandi. Sumir halda því fram að það sé draumsýn, hugmynd sem haldi ekki vatni og geti aldrei komið í stað þess sem við búum við – þ.e. efnahagskerfis iðnbyltingarinnar sem knúið er áfram af jarðefnaeldsneyti. Þeir sem þannig hugsa eru fastir í úreltum hugsunarhætti. Græna hagkerfið er það sem koma skal, það er í raun okkar eini valkostur ef við ætlum að lifa af á þessari jörð. Grænt hagkerfið byggir ekki á ofnýtingu takmarkaðra og oft mengandi auðlinda heldur á sjálfbærri nýtingu. Og við Íslendingar höfum alla burði til að feta okkur inn í það. Við búum við mikið landrými, hreinar orkulindir, náttúrugersemar á heimsvísu, gott menntakerfi og sterka samfélagsgrunngerð. Allir finnast þessir þættir í ríkum mæli hér á Vestfjörðum. Og þá er hægt að nýta og á að nýta til uppbyggingar sjálfbærs, lífvænlegs og spennandi mannfélags. Framtíðin er bæði björt og spennandi.
Ég óska okkur til hamingju með daginn. Ég hlakka til að fylgjast með ykkur og vinna með ykkur. Gangi ykkur vel.
Takk fyrir.