Norrænn leiðtogafundur um áskoranir hnattvæðingar
Geir H. Haarde forsætisráðherra sækir norrænan leiðtogafund um sameiginleg viðbrögð Norðurlanda við áskorunum hnattvæðingar. Fredrik Reinfeldt forsætisráðherra Svíþjóðar býður til fundarins sem verður haldinn á Riksgränsen í norðanverðri Svíþjóð dagana 8.-9. apríl.
Þema fundarins er ,,Samkeppnishæf Norðurlönd í hnattvæddum heimi". Norðurlönd þurfa að takast á við margar áskoranir, bæði hvað varðar óstöðugleika í efnahagsmálum og ástandið í loftslags- og orkumálum. Möguleikar á að viðhalda samkeppnishæfni og velferð til framtíðar ásamt leiðum til þess að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga verða því meginviðfangsefni fundarins.
Sænska sjónvarpið verður með beinar útsendingar frá Riksgränsen meðan á fundinum stendur, en einnig verður tekinn upp klukkustundar langur umræðuþáttur norrænu forsætisráðherranna sem áætlað er að verði sýndur í sjónvarpsstöðvum á Norðurlöndum
Norrænu forsætisráðherrarnir munu hitta framámenn úr atvinnulífinu, fjölmiðlum, vísindaheiminum, auk einstaklinga og fulltrúa frjálsra félagasamtaka á Norðurlöndum. Meðal þátttakenda verða Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra, Þorsteinn Pálsson ritstjóri Fréttablaðsins, Halldór Ásgrímsson framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Hannes G. Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Lars Josefsson framkvæmdastjóri Vattenfall í Svíþjóð, Jon Fredrik Baksaas framkvæmdastjóri fjarskiptafyrirtækisins Telenor, Jørgen Ejbøl stjórnarformaður JP/Politiken, Erkki Tuomioja forseti Norðurlandaráðs, Johan Norberg sem er sérfræðingur um hnattvæðingu, og Per Unckel, landshöfðingi í Stokkhólmi og fyrrverandi framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.
Á fundinum verða margvísleg málefni sem tengjast hnattvæðingu brotin til mergjar. Hann á að vera uppspretta hugmynda auk þess að vera ráðgefandi fyrir norrænu forsætisráðherrana og norrænt samstarf almennt. Til að krydda umræðuna enn frekar munu prófessor Jagdish N. Bhagwati prófessor við Columbia University, Quentin Peel, ritstjóri aðþjóðamála hjá Financial Times, og André Sapir prófessor við Université Libre i Brussel taka þátt í fundinum, en þessir menn teljast allir sérfróðir um hnattvæðingu.
Hnattvæðingarfundurinn er liður í formennskuáætlun Svíþjóðar í Norrænu ráðherranefndinni og er skipulagður í samstarfi við ráðherranefndarskrifstofuna í Kaupmannahöfn. Samstarfsráðherrar Norðurlanda munu einnig taka þátt sem og forsvarsmenn samstarfs norrænu þjóðþinganna í Norðurlandaráði.
Tengiliður við fjölmiðla er Roberta Alenius, blaðafulltrúi sænska forsætisráðherrans, [email protected], sími +46 8 405 49 04, en einnig má fá nánari upplýsingar hjá Snjólaugu Ólafsdóttur, gsm: 896-3962 eða Sturlu Sigurjónssyni, gsm: 899-8676.
Reykjavík 8. apríl 2008