Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2008 Forsætisráðuneytið

Upplýsingar um ferðir forsætisráðherra til Rúmeníu, Norður-Svíþjóðar og Nýfundnalands

Forsætisráðherra og utanríkisráðherra sátu leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Búkarest 2. til 4. apríl. Til fararinnar var leigð þota af gerðinni Dornier 328-310ER af flugfélaginu IceJet. Upphaflega stóð til að úr forsætisráðuneyti færi forsætisráðherra, eiginkona hans, aðstoðarmaður og tveir embættismenn. Frá utanríkisráðuneyti stóð til að færu utanríkisráðherra, aðstoðarmaður og þrír embættismenn. Alls 10 manns. Búið var að bóka flug til Búkarest í gegnum London með gistingu þar. Dagskráin í Búkarest hófst það snemma þriðjudaginn 2. apríl að ekki var hægt að komast þangað með áætlunarflugi á einum degi. Kostnaður við áætlunarflug, hótel og öryggismál var um 3,7 milljónir króna.
IceJet bauð leigu á þotunni á einstöku kynningarverði, 4,2 millj. króna. Með því að nýta þann kost var hægt að leggja af stað 2. apríl og komast heim þann 4. Þá spöruðust um 5 vinnudagar alls sem reikna má á u.þ.b. 200 þúsund kr. og dagpeningar upp á um 100 þúsund kr. Þetta fyrirkomulag gerði mögulegt að nýta mánudaginn 1. apríl til fundahalda, m.a. funduðu forsætisráðherra og utanríkisráðherra með bankastjórn Seðlabankans síðdegis 1. apríl.

Í vélinni eru 14 sæti og var ákveðið að bjóða fjölmiðlum þau fjögur sæti sem ónýtt voru. Það þáðu þrír fjölmiðlar: Fréttablaðið, Stöð 2 og Morgunblaðið. RÚV sendi fréttamann til fundarins frá London.
Rétt áður en ferðin var farin fækkaði um einn embættismann úr hvoru ráðuneyti, þ.a. fulltrúar ráðuneyta voru 8 og fjölmiðlamenn 3 á leiðinni til Búkarest. Á leiðinni til baka bættist í hópinn íslenskur lögreglumaður en á fundi bandalagsins um málefni Afganistans voru í táknrænni athöfn viðstaddir fulltrúar allra ríkja sem hafa tekið þátt í aðgerðum þar í landi og var lögreglumaðurinn einn þeirra.

Forsætisráðuneytið var leigutaki þotunnar og var sem slíkum óheimilt að framselja sæti í vélinni, þ.a. flugferðin var fjölmiðlum að kostnaðarlausu. Einn fjölmiðill, Morgunblaðið, hefur óskað eftir því að fá að greiða sinn hluta við kostnað vegna flugsins en ráðuneytinu er óheimilt að taka við greiðslu fyrir hann.
Kostnaðarauki miðað við ef farið hefði verið með áætlunarflugi er 200 þús. krónur. Kostnaður vegna ferðarinnar skiptist jafnt á forsætisráðuneytið og utanríkisráðuneytið.

Í gær, mánudaginn 7. apríl, flaug forsætisráðherra til Kiruna í Norður-Svíþjóð. Þaðan var ekið til bæjarins Riksgränsen þar sem haldinn er fundur norrænu forsætisráðherranna um alþjóðavæðingu og áhrif hennar. Fundurinn stendur í dag og á morgun. Fundinn sækir einnig viðskiptaráðherra sem staðgengill samstarfsráðherra Norðurlanda, auk þriggja starfsmanna. Tveir sérstakir gestir ráðherranefndarinnar koma einnig til fundarins frá Íslandi, Þorsteinn Pálsson ritstjóri Fréttablaðsins og Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Hvert land var beðið að bjóða allt að 10 gestum utan opinbera geirans á fundinn. Aðeins tveir af þeim sem haft var samband við á Íslandi áttu heimangengt. Ferðakostnaður gestanna er framlag Íslands til ráðherranefndarinnar vegna fundarins.
19 sæta flugvél af gerðinni Jetstream 32 frá flugfélaginu Erni, TF ORC, var leigð til fararinnar. Með því sparast 1-2 ferðadagar. Kostnaður við leiguna er 2.680.000 en hefði verið 1.106.000 kr. með áætlunarflugi. Hótelkostnaður sem ekki þarf að greiða vegna styttri ferðar er 180.000 kr. Dagpeningar sem ekki greiðast vegna styttri ferðar nema 187.000 krónum. Ávinning í vinnusparnaði vegna færri ferðadaga má meta á 360.000 krónur. Að þessu samanlögðu er áætlaður kostnaðarauki miðað við að fljúga í áætlunarflugi tæplega 850 þús. króna.

Forsætisráðherra verður í Boston í Bandaríkjunum og St. John’s á Nýfundnalandi, Kanada, dagana 10.-16. apríl nk. Hann verður ræðumaður við sérstaka athöfn við Brandeis-háskóla í Boston 11. apríl. Þá hefur hann þekkst boð Memorial-háskólans í St. John's um að flytja árlegan hátíðarfyrirlestur kenndan við John Kenneth Galbraith 15. apríl nk. Í þeirri heimsókn fundar hann með forsætisráðherra Nýfundalands og Labradors og undirrita þeir samstarfsyfirlýsingu milli fylkisins og Íslands. Skipulögð hefur verið viðamikil dagskrá fyrir ráðherra dagana 14.-16. apríl í St. John´s, þar sem m.a. er gert ráð fyrir tveimur fyrirlestrum, þátttöku í málstofum í hagfræði- og stjórnmálafræðideildum Memorial-háskóla, viðtölum við kanadíska fjölmiðla og fundi í hafrannsóknastofnun Nýfundnalands. Memorial-háskóli greiðir ferðakostnað ráðherra auk þóknunar fyrir fyrirlesturinn sem rennur til forsætisráðuneytisins. Flogið verður báðar leiðir með áætlunarflugi.

                                                                                                         

Reykjavík 8. apríl 2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta