Utanríkisráðherra fundar með Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og fulltrúum Alþjóðabankans
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, heldur til Washington, D.C. dagana 11.-13. apríl nk. þar sem hún mun eiga fund með Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og sitja fund þróunarnefndar Alþjóðabankans. Ísland gegnir nú formennsku í kjördæmi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í bankanum.
Á fundi sínum á morgun, föstudag, munu Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Condoleezza Rice ræða framtíð öryggis- og varnarsamstarfs ríkjanna en í kjölfar brotthvarfs varnarliðsins árið 2006 var samþykkt að efla reglulegt pólitískt samráð. Verður útfærsla þessa samráðs til umræðu, auk viðskipta landanna og annarra mála.
Síðar sama dag fundar utanríkisráðherra með Women´s Foreign Policy Group, sem er félagsskapur áhrifakvenna um utanríkismál og tekur á laugardag þátt í morgunverðarfundi ráðgjafanefndar Alþjóðabankans um málefni kvenna, þar sem hún á sæti m.a. ásamt öðrum ráðherrum frá Danmörku, Svíþjóð, Þýskalandi, Líberíu og Egyptalandi.
Ingibjörg Sólrún situr á laugardag kjördæmisfund Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna til undirbúnings vorfundar þróunarnefndar Alþjóðabankans, sem haldinn verður á sunnudag. Þar mun utanríkisráðherra tala fyrir hönd kjördæmisins. Á sunnudaginn mun utanríkisráðherra ennfremur sitja sérstakan ráðherrafund Alþjóðabankans um loftslagsmál.