Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aðalfundur Aðstandendafélags aldraðra

Góðir gestir og félagar í Aðstandendafélagi aldraðra.

Ég þakka ykkur fyrir að bjóða mér á fund ykkar í dag og gefa mér tækifæri til að ræða um málefni aldraðra, vilja minn og áherslur í þessum málaflokki sem nýlega var fluttur frá heilbrigðisráðuneytinu í félags- og tryggingamálaráðuneytið.

Aðstandendafélag aldraðra er aðeins tveggja ára gamalt, stofnað 26. mars 2006. Mér er minnistætt þegar félagið kom fyrst fram á sjónarsviðið og það er með ólíkindum að svo ungt félag hafi á jafn skömmum tíma náð að láta svo mikið til sín taka.

Vinur er sá sem til vamms segir og þeim augum finnst mér eðlilegt að stjórnvöld líti Aðstandendafélag aldraðra, þótt gagnrýnin geti verið nokkuð harkaleg á stundum.

Í ályktun stofnfundar félagsins árið 2006 var hvatt til þjóðarátaks í búsetu- og kjaramálum aldraðra. Þar sagði meðal annars: ,,Orð, nefndir og skýrslur duga ekki lengur heldur athafnir. Í þjóðfélagi sem kennir sig við velferð er ólíðandi að aldraðir bíði árum saman eftir viðunandi húsnæði og skattlagning aldraðra er þjóðarskömm."

Ég tek undir það að orð, nefndir og skýrslur duga ekki einar sér — það þarf líka að framkvæma. Munum samt að orð eru til alls fyrst og að við uppbyggingu þjónustu við aldraða er mikilvægt að hafa skýra sýn og vita hvert skal stefna. Um langt skeið hafa áherslur í uppbyggingu öldrunarþjónustu markast af því að litið hefur verið á málefni aldraðra sem heilbrigðismál. Það er ekki síst fyrir tilstilli eldri borgara sjálfra og aðstandenda aldraðra sem láta sig málið varða að horfið hefur verið frá þessari hugsun. Ný hugsun felst í því að kjarninn í málefnum aldraðra sé ekki heilbrigðismál heldur varði fyrst og fremst þætti sem snúast um almenna, ekki síst félagslega velferð. Þá á ég við þætti eins og afkomu, búsetu, félagslega virkni og samfélagsþátttöku almennt. Góð heilbrigðis- og félagsleg þjónusta í samræmi við þarfir hvers og eins er svo liður í því að stuðla að velferð einstaklingsins.

Með því að flytja heildarábyrgð á málefnum aldraðra frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis hafa stjórnvöld staðfest breyttar áherslur og vilja sinn til að vinna á þessum forsendum. Löggjöf um málefni aldraðra heyrir nú undir félags- og tryggingamálaráðuneytið og þar með framtíðaruppbygging og stefnumótun á þessu mikilvæga og vaxandi sviði. Ég tel þessa breytingu löngu tímabæra og er sannfærð um að hún feli í sér tækifæri til að byggja upp gjörbreytta og betri þjónustu við aldraða í landinu.

Það skal tekið fram að heilbrigðisþjónusta er eftir sem áður á ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins, en í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er skýrt kveðið á um að stefnt skuli að því að flytja ábyrgð á lögbundinni þjónustu við aldraða frá ríki til sveitarfélaga. Þar er svo sannarlega verk að vinna og nú er unnið af kappi að því undirbúa frekari ákvarðanatöku á því sviði. Verkefnisstjórnir og undirnefndir með aðkomu ríkis, sveitarfélaga og hagsmunasamtaka hafa fengið sérfræðinga til liðs við sig sem ætlað er að vinna þjónustumat og undirbyggja frekari tillögugerð.

Eins og félögum í Aðstandendafélagi aldraðra er eflaust kunnugt um setti ég á fót ráðgjafarhóp til að leggja mér lið við stefnumótun í málefnum aldraðra í desember síðastliðnum en þar átti meðal annarra sæti formaður félagsins. Þessi hópur vann hratt og vel og skilaði mér tillögum sem ég hef nú lagt fyrir samstarfsnefnd um málefni aldraðra.

Í stuttu máli ganga tillögurnar út á að þjónusta við aldraða skuli vera nærþjónusta, ólíkir þjónustuþættir þurfi að vera sem mest á einni hendi og að þeim verði best sinnt af sveitarfélögunum. Gengið er út frá rétti aldraðra til eigin heimilis og því skuli megináhersla lögð á að tryggja öldruðum fjölbreytt búsetuúrræði með víðtækri heimaþjónustu sem hæfir ólíkum aðstæðum og þörfum. Áhersla er lögð á að uppbygging nýrra hjúkrunarrýma taki mið af þessari hugsun og að allar aðstæður aldraðra á hjúkrunarheimilum verði aðlagaðar þannig að þær líkist sem mest venjulegu heimili. Ein af forsendum þessa er að öldruðum sé tryggt efnahagslegt sjálfstæði.

Ráðgjafarhópurinn telur mikilvægt að grípa til markvissra aðgerða til að tryggja stöðugleika meðal starfsfólks í öldrunarþjónustu og að nægt framboð sé af hæfu og vel menntuðu starfsfólki. Einnig þurfi að bæta upplýsingar og aðgang að þeim um þjónustu og úrræði fyrir aldraða.

Til lengri tíma litið telur ráðgjafarhópurinn að horfið skuli frá því að aðgreina fólk og þjónustu við það eftir aldri, sjúkdómum, fötlun eða öðrum skilmerkjum, heldur eigi þjónusta og stuðningur að taka mið af þörfum hvers og eins. Í ljósi þessa vill ráðgjafarhópurinn að réttindi aldraðra verði tryggð í almennri löggjöf og að í framhaldi af því verði sérlög um málefni aldraðra lögð niður.

Þótt mikill tími hafi farið í orð, nefndir og skýrslur í gegnum tíðina tel ég að nú hafi okkur orðið ágengt og orðin fengið hljómgrunn. Það er orðið viðurkennt að skipulag málaflokksins hefur staðið í vegi fyrir framförum og bættri þjónustu. Ábyrgðin hefur verið dreifð og í ýmsum efnum óskýr. Þar sem ekki hefur farið saman ábyrgð á þjónustu gagnvart einstaklingum, ábyrgð á uppbyggingu ólíkra þjónustuúrræða og fjárhagsleg ábyrgð á því að nýta ávallt þau úrræði sem best þjóna þörfum hvers og eins og eru hagkvæmust fyrir samfélagið í heild.

Hér má nefna sem dæmi að sveitarfélögin bera ábyrgð á uppbyggingu þjónustuíbúða fyrir aldraða og einnig á félagsþjónustu, til dæmis heimaþjónustu, en ríkið er ábyrgt fyrir heimahjúkrun og stofnanaþjónustu. Fjárhagslega njóta sveitarfélögin ekki ávinnings af því að byggja þjónustu sína þannig upp að hún styðji aldraða til þess að búa sem lengst í sjálfstæðri búsetu. Þvert á móti leggur það aukinn kostnað á herðar þeirra en sparar aftur á móti útgjöld ríkisins sem minna þarf þá að leggja til stofnanaþjónustunnar. Það segir sig sjálft að svona fyrirkomulag hvetur til notkunar dýrustu úrræðanna sem er þjóðhagslega óhagkvæmt. Það sem verra er þá felur þetta fyrirkomulag í sér brotakennda þjónustukeðju og stríðir gegn yfirlýstri stefnu og almennum vilja þess efnis að öldruðum skuli gert kleift að búa sem lengst á eigin heimili með viðeigandi stuðningi og þjónustu.

Með flutningi lögbundinnar þjónustu við aldraða til sveitarfélaga verður hlutverk félags- og tryggingamálaráðuneytisins skýrara og mun þá fyrst og fremst snúast um að móta stefnu í málaflokknum, skilgreina faglegar kröfur til þjónustunnar í lögum og reglugerðum og sjá til þess að eftir þeim sé farið.

Það er margt í þjónustu við aldraða sem við þurfum að bæta og ég tel að þær skipulagsbreytingar sem ég hef rætt um hér séu grundvallaratriði í þeim efnum. Þessi vegferð er rétt að hefjast og spennandi tímar framundan. Verkefnin núna felast í því að auka framboð þjónustu sem þegar er til staðar en ekki síður að auka fjölbreytni úrræða.

Hafa skal hugfast að uppbygging öldrunarþjónustu, hvort sem um er að ræða uppbyggingu í formi steinsteypu eða skipulags á þjónustukerfi, er ekki aðeins málefni nútímans heldur einnig framtíðarinnar. Því er framsýni og víðsýni nauðsynleg svo ekki verði ráðist í framkvæmdir og breytingar sem verða úreltar eftir fáein ár eða vinna gegn meginmarkmiðum stefnunnar til lengri tíma litið.

Það er almennt orðin viðurkennd stefna að styðja skuli aldraða til sjálfstæðrar búsetu á eigin heimili sem lengst og hverfa frá því stofnanafyrirkomulagi sem nú hefur tíðkast. Ég legg samt áherslu á að við megum ekki ganga of langt í þessum efnum. Þótt vel takist að stórefla þjónustu við aldraða í heimahúsum munu ávallt verða einhverjir sem þurfa meiri hjúkrun og umönnun að staðaldri en unnt er að veita á einkaheimilum fólks. Þeirra þörfum þarf að mæta á öðrum forsendum en hingað til og gera hjúkrunarheimili þannig úr garði að þau uppfylli eins og kostur er þær kröfur sem við öll gerum til heimilislegra aðstæðna og réttinum til persónufrelsis og friðhelgi einkalífs.

Það er margt sem við þurfum að breyta frá því sem nú er. Þar nefni ég sérstaklega greiðslufyrirkomulag fyrir það sem nú kallast dvalar- og hjúkrunarrými. Því vil ég breyta þannig að skýrt sé hvaða þjónustu fólki er ætlað að greiða fyrir og að innheimta þess kostnaðar byggist á því að fólk fari sjálft með fjárræði sitt. Jafnframt verður að endurskoða svokallaða vasapeninga til vistmanna, en það fyrirkomulag er löngu úrelt og stríðir gegn sjálfstæði fólks sem dvelur á stofnunum fyrir aldraða.

Góðir fundarmenn.

Fyrir liggur stefna ríkisstjórnarinnar um að hraða uppbyggingu 400 nýrra hjúkrunarrýma og að því vinn ég nú á þeim forsendum sem áður eru nefndar. Annað mikilvægt verkefni er að fækka fjölbýlum á hjúkrunarheimilum og færa aðstæður til nútímalegs horfs. Í árslok 2006 voru tæplega 850 aldraðir í fjölbýlum á hjúkrunarheimilum, flestir í tvíbýli. Til að mæta fækkun vegna breytinganna er þörf fyrir rúmlega 400 hjúkrunarrými til viðbótar. Gróflega áætlað nemur kostnaður við breytingar fjölbýla í einbýli og áform um fjölgun hjúkrunarrýma allt að 17 milljörðum króna. Til að takast á við þetta stóra verkefni er nauðsynlegt að nota fjölbreyttari fjármögnunarleiðir en hingað til hefur verið gert. Því hef ég ákveðið að nýta lagaheimild til að fjármagna framkvæmdir með leigu samhliða því að skoða fleiri leiðir til fjármögnunar.

Við uppbyggingu hjúkrunarrýma þarf að huga sérstaklega að þörfum heilabilaðra en það er sá hópur sem síst er hægt að þjónusta heima ef sjúkdómurinn er kominn á það stig að þörf er á stöðugu eftirliti.

Samkvæmt hjúkrunarmælingum á hjúkrunarheimilum eru tæp 65% aldraðra með heilabilun af einhverju tagi og 24% þess hóps eru með Alzheimer. Ekki er þörf fyrir hjúkrunarrými á sérstökum heilabilunareiningum fyrir nema hluta þessa hóps en gera má ráð fyrir að algjört lágmark sérstakra hjúkrunarrýma fyrir heilabilaða sé um 20% af heildarfjölda rýma. Þetta hlutfall ætla ég þó að skoða nánar í samvinnu við sérfræðinga þar sem gera má ráð fyrir umtalsverðri fjölgun í hópi þeirra sem þjást af heilabilun.

Á síðustu árum hefur verið unnið að því að fjölga dagvistarrýmum fyrir aldraða, en með aukinni áherslu á stuðning við aldraða til að búa sem lengst heima eykst þörf fyrir þetta úrræði. Ég vil halda áfram á þessari braut og leggja í verkefnið aukinn kraft, jafnframt því að leggja aukna áherslu á möguleika til hvíldarinnlagna með viðeigandi þjálfun og endurhæfingu.

Ég sagði áðan að ekki mætti ganga of langt í þeirri áherslu að þjónusta aldraða í heimahúsum. Veikindi, öryggisleysi og félagsleg einangrun geta valdið því að hagsmunum fólks er betur borgið í sambýlum eða á hjúkrunarheimilum með samfelldri viðveru og umönnun. Of rík áhersla á að annast fólk í heimahúsum getur einnig leitt til þess að of miklar byrðar séu lagðar á aðstandendur sem við vitum að gegna iðulega stóru hlutverki í umönnun aldraðra foreldra eða annarra nákominna ættingja. Við þurfum því að finna jafnvægi í framboði ólíkra úrræða sem mætir mismunandi þörfum fólks og aðstæðum.

  

Ágætu fundarmenn.

Ég veit að kjaramál aldraðra eru ykkur einnig ofarlega í huga og ætla því að fara nokkrum orðum um þau mál, enda er lífeyrishluti almannatrygginga á könnu félags- og tryggingamálaráðherra frá síðustu áramótum. Það gætir nokkurrar óþolinmæði í þessum efnum meðal lífeyrisþega og það er vel skiljanlegt, ekki síst í ljósi ótryggs efnahagsástands nú um stundir, aukinnar verðbólgu og þar með minnkandi kaupmáttar. Á þeim þremur mánuðum sem ég hef farið með þennan málaflokk hafa komið til framkvæmda fyrstu stóru áfangarnir í boðuðum endurbótum ríkisstjórnarinnar á almannatryggingum, ásamt þeim almennu hækkunum lífeyris sem ákveðnar voru í kjölfar kjarasamninga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Þegar aðgerðir þessar verða allar komnar til framkvæmda á þessu ári munu greiðslur ríkisins til lífeyrisþega hækka um 9 milljarða króna á ársgrundvelli eða um rúm 17% miðað við síðasta ár.

Lífeyrir aldraðra og öryrkja hækkaði um 3,3% um áramótin. Í framhaldi af fyrrnefndum kjarasamningum var ákveðið að hækka bætur lífeyrisþega til samræmis við meðaltalshækkun lægstu launa sem áætluð voru um 7% á árinu. Um síðustu mánaðamót hækkuðu lífeyrisgreiðslur um 4% og var hækkunin afturvirk frá 1. febrúar. Samtals nema þessar hækkanir því 7,4%, eða 9.400 krónum til þeirra sem hafa einungis óskertar greiðslur almannatrygginga. Á sama tíma voru skerðingar bóta vegna tekna maka að fullu afnumdar — réttlætismál sem lengi hefur verið sótt af samtökum aldraðra og öryrkja. Þá hefur nú verið sett 90.000 króna frítekjumark á fjármagnstekjur sem felur í sér að fjármagnstekjur að 90.000 krónum á ári skerða ekki bætur lífeyristrygginga. Þessi aðgerð ein og sér mun að líkum fækka endurkröfum Tryggingastofnunar ríkisins um helming, en bakreikningar þessir hafa valdið lífeyrisþegum miklum óþægindum og erfiðleikum á undanförnum árum.

Svokallaðir dagpeningar aldraðra sem eru á stofnunum eru enn við líði, en eins og ég hef áður sagt ætla ég að endurskoða það fyrirkomulag sem ég tel óeðlilegt. Sú breyting verður gerð með heildarendurskoðun laga um almannatryggingar sem nú stendur yfir. Tillögur hóps sem vinnur að því verkefni eiga að liggja fyrir undir lok þessa árs. Markmiðið er að einfalda almannatryggingakerfið og bæta hag lífeyrisþega. Áður en ný löggjöf tekur gildi verðum við að vinna úr því sem við höfum og vinna að leiðréttingum. Liður í því er hækkun vasapeninga tekjulausra íbúa dvalar- og hjúkrunarheimila um tæp 30% sem tók gildi um síðustu mánaðamót. Fjárhæðin hefur því hækkað úr 28.600 krónum í rúmar 38.00 krónur.

Í júlí mun frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67–70 ára hækka í 100.000 krónur á mánuði. Við það hækka greiðslur um 700 einstaklinga og getur hækkunin numið allt að 40.000 krónum á mánuði frá því sem var á síðasta ári. Eins og áður hefur verið greint frá var nefnd sem vinnur að endurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar falið að móta tillögur að lágmarksframfærsluviðmiði fyrir lífeyrisþega og var miðað við að hún skilaði tillögum sínum 1. nóvember. Nú hef ég ákveðið að flýta þeirri vinnu og er nefndinni ætlað að skila tillögu um þetta efni eigi síðar en 1. júlí. Einnig liggur fyrir ákvörðun um að tryggja öllum öldruðum sem ekki njóta a.m.k. 25.000 króna greiðslu úr lífeyrissjóði á mánuði nokkurs konar lágmarkstryggingu sem svarar til þessarar fjárhæðar. Þetta mun skila sér til þeirra sem búa við lökust kjör meðal ellilífeyrisþega og hafa hingað til fengið nær einungis lífeyri frá Tryggingastofnun. Lífeyristryggingin ásamt 7,4% hækkun lífeyris mun skila þeim sem minnst hafa um 23.000 krónum á mánuði fyrir skatt. Til samanburðar hækkuðu lægstu laun hjá Alþýðusambandi Íslands um 18.000 krónur eins og fram hefur komið.

Eins og þið heyrið hefur sitthvað verið gert í kjaramálum aldraðra á síðustu mánuðum. Reyndar er mér sagt að sjaldan eða aldrei hafi á Íslandi verið teknar eins viðamiklar ákvarðanir um bætt kjör lífeyrisþega á svo skömmum tíma. Ég tek það hins vegar skýrt fram að hér er aðeins um fyrstu skref að ræða og verkefnin framundan eru ærin.

Góðir áheyrendur.

Ég legg áherslu á að við mótun og framkvæmd stefnu í málefnum aldraðra þarf að tryggja að almenn mannréttindi séu í heiðri þörf. Þetta ætti ekki að þurfa að tíunda en ég geri það samt þar sem mannréttindi eru afar viðkvæm þegar fjallað er um skipulag þjónustu og úrræða fyrir þá sem vegna aðstæðna þurfa á sérstökum stuðningi að halda. Mannréttindi sem sérstaklega þarf að gæta að við þær aðstæður eru réttur til persónufrelsis, friðhelgi einkalífsins, réttur til fjölskyldu, búsetu og eigin heimilis, réttur til atvinnu og til aðgengis og þátttöku í samfélaginu, réttur til framfærslu, réttur til heilbrigðis- og félagsþjónustu og jafnframt bann við ómannlegri og vanvirðandi meðferð. Á þessu mun ég byggja stefnu mína og aðgerðir sem félags- og tryggingamálaráðherra.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta