Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2008 Utanríkisráðuneytið

Samstarf kvenutanríkisráðherra og öryggissamstarf rætt

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Condoleezza Rice
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Condoleezza Rice

Efling samstarfs kvenutanríkisráðherra, áritanir fyrir Íslendinga sem sinna viðskiptum í Bandaríkjunum og öryggissamstarf voru á meðal þeirra atriða sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Condoleezza Rica, utanríkisráðherra Bandaríkjanna ræddu á fundi sínum í Washington D.C. í dag.

Ráðherrarnir lýstu miklum áhuga á að efla samstarf þeirra kvenna sem gegna stöðu utanríkisráðherra og voru sammála um að ein lykiláherslan í slíku samstarfi væri ályktun Sameinuðu þjóðanna númer 1325 um konur, frið og öryggi.

Viðskipti ríkjanna voru einnig á dagskrá fundarins, einkum áritanir fyrir þá sem sinna viðskiptum við Bandaríkin og þurfa að dvelja þar til lengri eða skemmri tíma. Lagði Ingibjörg Sólrún á það áherslu að Íslendingar kæmust í hóp þeirra þjóða sem eru undanþegnar kröfu um áritun til Bandaríkjanna fyrir viðskiptamenn.

Varnar- og öryggismál voru ofarlega á baugi á fundi ráðherranna, sem ræddu ástand mála í Mið-Austurlöndum og Afganistan, Norðurslóðir, og öryggissamstarf Íslands og Bandaríkjanna. Ræddu þær þá enda sem hnýta þarf í kjölfar brotthvarfs Bandaríkjahers 2006 og framhald reglubundins öryggissamráðs ríkjanna, en næsti fundur innan þess ramma verður á milli íslenskra og bandarískra embættismanna 30. apríl.

Öryggissamstarf ríkjanna var einnig rætt á fundi sem Ingibjörg Sólrún átti með Eric S. Edelman aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna fyrr um daginn, auk þess sem ástandið og uppbyggingarstarf alþjóðasamfélagsins í Afganistan bar á góma.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta