Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Af vettvangi tvísköttunarmála

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 10. apríl 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Hinn 4. apríl 2008 var undirrituð í Helsinki bókun við norræna tvísköttunarsamninginn (PDF 24 KB) frá árinu 1996.

Í þeirri bókun er að finna ýmsar breytingar á einstökum ákvæðum samningsins sem fyrst og fremst taka mið af þeirri þróun sem orðið hefur á reglum er varða tvísköttun á gildistíma hans. Jafnframt hefur skattalöggjöf landanna breyst nokkuð frá því að samningurinn var undirritaður.

Með bókuninni eru m.a. gerðar breytingar á þeim ákvæðum samningsins sem gilda um skattlagningu arðs (gr. 10), söluhagnaðar af hlutabréfum (gr. 13), endurgjalds af vinnu um borð í flugvélum (gr. 15) og lífeyrisgreiðslna (gr. 18). Einnig eru gerðar minniháttar breytingar á reglum um framkvæmd samningsins.

Sú breyting sem mestu máli skiptir fyrir íslenska skattborgara er sú sem gerð er á skattlagningu lífeyrisgreiðslna. Samkvæmt gildandi samningi, sbr. 18. gr., skal einungis skattleggja eftirlaun og lífeyri í því ríki þaðan sem hann er greiddur. Sem dæmi, íslenskur lífeyrisþegi sem eyðir ellinni í Danmörku en fær eftirlaun greidd úr íslenskum lífeyrissjóði, greiðir einungis tekjuskatt og útsvar af þeim greiðslum á Íslandi.

Breytingin skv. bókuninni felur það hins vegar í sér að skattlagningaréttinum er skipt milli greiðsluríkis og búseturíkis lífeyrisþegans. Það þýðir að íslenski lífeyrisþeginn í Danmörku er skattlagður með sama hætti og áður hér á landi, en samtímis öðlast dönsk skattyfirvöld rétt til að skattleggja þessar tekjur, þó þannig að frá þeim tekjuskatti sem heimilt verður að leggja á í Danmörku dregst sá tekjuskattur sem þegar hefur verið greiddur á Íslandi.

Löndin stefna á að fullgilda bókunina um breytingu á samningnum á þessu ári og tekur hún þá gildi frá og með næstu áramótum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta