Ráðherra í opinberri heimsókn til Brussel
Kristján Möller samgönguráðherra fundaði í gær með Jacques Barrot, varaforseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og framkvæmdastjóra samgöngumála, en opinber heimsókn samgönguráðherra til Brussel stendur nú yfir. Kristján og Barrot ræddu meðal annars loftferðasamninga, flugverndarmál og aksturs- og hvíldartíma vörubílstjóra.
Þá fjölluðu þeir einnig um losunarheimildir flugfélaga en til stendur að takmarka þær og hefja sölu á losunarkvóta. Barrot lýsti jafnframt yfir rætt hefði verið um það innan framkvæmdastjórnar ESB að Ísland sækti um aðild að ESB og sagði hann afstöðu til þess mjög jákvæða.