Ársfundur Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, ávarpaði í dag ársfund Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Í ávarpinu fjallaði hún meðal annars um áhrif efnahagsástandsins á þær fjölskyldur sem veikast standa, meðal annars með tilliti til spár Seðlabankans um 30% lækkun fasteignaverðs og sagði það áhyggjuefni ef tala ætti niður fasteignaverð umfram tilefni til þess að ná verðbólgumarkmiðum. Ráðherra sagði einnig:
„Hér á landi hafa skattayfirvöld heimild til að taka allt að 75% af launatekjum þeirra sem skulda opinber gjöld sem mér finnst alltof hátt hlutfall. Mig grunar að þetta geti verið mörgum einstæðum foreldrum erfitt viðureignar en fjölgun einstæðra feðra sem leita bæði til Ráðgjafarstofu og félagsþjónustu sveitarfélaga vekur athygli. Einstæðar mæður og einstæðir karlar eru rúmlega helmingur þeirra sem leita til Ráðgjafarstofunnar. Mikilvægt er að leita allra leiða og úrræða til að styrkja stöðu þessara hópa í samfélaginu.“
Á ársfundinum gerði Ásta S. Helgadóttir, forstöðumaður Ráðgjafarstofu, grein fyrir ársskýrslu fyrir árið 2007. Breki Karlsson, sérfræðingur hjá Icebank, fjallaði um rannsókn er hann gerði árið 2005 um fjármálalæsi framhaldsskólanema og Ólafur Ísleifsson, lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, fjallaði um efnahagslífið og fjárhag heimilanna.
Í ársskýrslu Ráðgjafarstofu fyrir árið 2007 kemur fram að 612 umsóknir frá fjölskyldum og einstaklingum voru afgreiddar á árinu. Auk þess var mörgum leiðbeint gegnum síma en símaráðgjöf er alla virka daga á opnunartíma. Einnig er netspjall á heimasíðu Ráðgjafarstofu (www.rad.is). Í ársskýrslu koma fram ýmsar upplýsingar um viðskiptavini stofunnar. Flestir koma af höfuðborgarsvæðinu eða 80% umsækjenda. Fjölmennasti einstaki hópur viðskiptavina er eins og undanfarin ár einstæðar mæður en þær eru 34% umsækjenda. Næst koma einhleypir karlmenn en þeir voru 23%. Áföll af ýmsum toga hafa mikil áhrif á getu einstaklinga og fjölskyldna til að standa undir útgjöldum og eru veikindi algengasta ástæða greiðsluerfiðleika meðal viðskiptavina. Næstalgengasta ástæðan er vankunnátta í fjármálum en 16% umsækjenda nefna hana. Á árinu eru aldurshóparnir 21–30 ára og 31–40 ára nánast jafnstórir. Þeir eru rúmlega 60% umsækjenda. Húsnæðisaðstæður umsækjenda eru þær að flestir eru í leiguhúsnæði eða 54% og flestir eru í atvinnu eða 57%. Samkvæmt ársskýrslu hafa heildarskuldir þeirra sem leita til Ráðgjafarstofu aukist um 14,9% milli ára og vanskil hafa hækkað um 33,5%. Vanskil lána með raðgreiðslusamningi og bílalán hafa aukist mest á milli ára.
Fundarstjóri á ársfundinum var Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur í félags- og tryggingamálaráðuneytinu, en hún hefur verið skipuð formaður framkvæmdastjórnar Ráðgjafarstofunnar.
Ársskýrsla Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna 2007 (PDF, 1,17MB)
Ávarp félags- og tryggingamálaráðherra á ársfundi Ráðgjafarstofu