Ávarp dóms- og kirkjumálaráðherra við brautskráningu úr Lögregluskóla ríkisins
„Þið gangið til liðs við mikils metinn hóp karla og kvenna, sem leggur ómetanlegt starf af mörkum til að tryggja öryggi samborgara sinna,“ sagði Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra m.a. í upphafi ávarps síns við brautskráningu úr Lögregluskóla ríkisins í dag.
Alls brautskráðust 45 lögreglumenn í dag en skólinn mun útskrifa aftur í haust og þess er vænst að á árinu 2008 brautskráist 78 lögreglunemar úr skólanum, sem samsvarar 10% af öllu lögregluliði landsins. Ráðherra bauð nýja lögreglumenn velkomna til starfa og minnti á að þeir væru ekki að koma inn í staðnað umhverfi heldur á starfsvettvang þar sem miklar breytingar væru á döfinni – ekki breytinganna vegna heldur í því skyni að gera góða hluti betur.
Brautskráningin fór fram við hátíðlega athöfn í Bústaðakirkju og til máls tóku auk ráðherra þau Arnar Guðmundsson skólastjóri, Sveinn Ingiberg Magnússon, fráfarandi formaður Landssambands lögreglumanna, og Antonía Hermannsdóttir, fulltrúi nemenda.