Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Árangur minkaveiðiátaks

Minkur
Minkur

Á árinu 2006 ákvað umhverfisráðherra að hrinda af stað tilraunaverkefni í minkaveiðum til að athuga hvort fýsilegt væri að útrýma mink á Íslandi. Tvö svæði urðu fyrir valinu, Eyjafjörður og Snæfellsnes. Nú liggja fyrir fyrstu niðurstöður um árangur veiðanna árið 2007, en átakið stendur yfir 2007-2009.

Í átakinu er stefnt er að því að auka veiðiálag á svæðunum tveimur verulega frá því sem áður var auk þess sem veiðarnar eru með skipulegri hætti. Samhliða veiðunum er í gangi rannsóknir sem ætlað er að meta árangur veiðiátaksins á Snæfellsnesi fyrsta ár verkefnisins og auk þess rannsaka afla veiðimanna á svæðunum báðum öll árin. Rannsóknirnar eru unnar af Náttúrustofu Vesturlands í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands og Líffræðistofnun Háskólans. Nefnd á vegum umhverfisráðuneytisins hefur umsjón með veiðiátakinu, en Umhverfisstofnun hefur umsjón með veiðunum og ræður verkefnisstjóra og veiðimenn til að sinna þeim.

Við minkaveiðar eru einkum tvær aðferðir notaðar þ.e. gildruveiði og hundaveiði. Lagðar eru gildrur þar sem von er á umferð minka og hundar notaðir til að þefa uppi bæli minka. Gildrum var fjölgað umtalsvert frá því sem áður var og þær jafnframt lagðar víðar en áður. Áhersla var lögð á að hefja gildruveiðarnar af fullum þunga um mánaðarmótin febrúar/mars og voru gildrurnar hafðar úti út nóvembermánuð. Þeirra var svo vitjað reglubundið allan tímann. Hundaveiði hófst í lok mars á Snæfellsnesi og um mánuði seinna í Eyjafirði og var meginþungi hundaveiðinnar frá apríl til júní en minni eftir það.

Í lok árs var vitað um 349 minka sem höfðu veiðst á báðum svæðum. Af þeim voru 204 veiddir á Eyjafjarðarsvæðinu en 145 á Snæfellsnesi. Hér eru einungis talin fullorðin dýr en ekki hvolparnir eins og tíðkast hefur víðast. Af samanburði við fyrri ár er ljóst að um allnokkra aukningu er að ræða frá fyrri árum. Hlutfall kvendýra í veiðinni var heldur hærra en hlutfall karldýra, 58% á Eyjafjarðarsvæðinu og 51% á Snæfellsnesi. Ef aðeins er tekið tímabilið janúar til maí er hlutfallið hærra, þ.e. 62% á Eyjafjarðarsvæðinu og 51% á Snæfellsnesi. Á þessum tíma er mikilvægt að ná kvendýrunum og draga þannig úr framleiðni stofnsins.

Skýrsla Umhverfisstofnunar um framkvæmd og árangur veiðiátaksins á árinu 2007 er aðgengileg á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Skýrsla Náttúrustofu Vesturlands um fyrstu rannsóknaniðurstöður verður innan skamms aðgengileg á netinu. Niðurstöðurnar hafa verið kynntar á fundum á Akureyri og í Stykkishólmi. Verkefnið heldur áfram af fullum þunga á þessu ári og hinu næsta og verður við áframhald veiða byggt á þeirri reynslu sem fékkst á fyrsta árinu.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta