Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2008 Utanríkisráðuneytið

Ísland skipar fulltrúa gagnvart palestínskum stjórnvöldum

ThordurAegirOskarsson
Þórður Ægir Óskarsson

Utanríkisráðherra, Ingibjörg Sórún Gísladóttir, hefur skipað Þórð Ægi Óskarsson sendiherra sérstakan fulltrúa gagnvart palestínskum stjórnvöldum. Var tilkynnt um skipunina á fundi ráðherra og Mahmúd Abbas, forseta Palestínu, í Ráðherrabústaðnum í gær. Með skipuninni verða tengsl Íslands og Palestínu efld til muna og viðleitni íslenskra stjórnvalda til þess að hafa jákvæð áhrif á friðarferlið aukin, m.a. með því að styðja frekari aðkomu kvenna að friðarferlinu.

Skipunin er í samræmi við aðgerðaráætlun fyrir Mið-Austurlönd sem samþykkt var í ríkisstjórn í október sl. Áætlunin miðar að því að bæta aðstæður Palestínumanna og efla tengsl Íslands við heimshlutann í heild. Í henni felast aukin fjárframlög til alþjóðastofnana, hjálparstofnana og frjálsra félagasamtaka sem starfa á svæðinu, sem og framlög í formi útsendra starfsmanna friðargæslunnar.

Samskipti palestínskra stjórnvalda við erlend ríki lúta bráðabirgðasamningi Ísraels og Palestínu um Vesturbakkann og Gaza frá 28. september 1995. Samningurinn byggir á Oslóarsamkomulaginu svokallaða en samkvæmt honum er palestínskum stjórnvöldum heimilt að gera efnahagssamninga, samninga um þróunaraðstoð og samninga á sviði menningar, vísinda og menntunar við erlend ríki og alþjóðastofnanir. Gert er ráð fyrir samskiptum palestínskra stjórnvalda við fulltrúa erlendra ríkja og alþjóðastofnana í þessu skyni.



ThordurAegirOskarsson
Þórður Ægir Óskarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta