Ísland skipar fulltrúa gagnvart palestínskum stjórnvöldum
Utanríkisráðherra, Ingibjörg Sórún Gísladóttir, hefur skipað Þórð Ægi Óskarsson sendiherra sérstakan fulltrúa gagnvart palestínskum stjórnvöldum. Var tilkynnt um skipunina á fundi ráðherra og Mahmúd Abbas, forseta Palestínu, í Ráðherrabústaðnum í gær. Með skipuninni verða tengsl Íslands og Palestínu efld til muna og viðleitni íslenskra stjórnvalda til þess að hafa jákvæð áhrif á friðarferlið aukin, m.a. með því að styðja frekari aðkomu kvenna að friðarferlinu.
Skipunin er í samræmi við aðgerðaráætlun fyrir Mið-Austurlönd sem samþykkt var í ríkisstjórn í október sl. Áætlunin miðar að því að bæta aðstæður Palestínumanna og efla tengsl Íslands við heimshlutann í heild. Í henni felast aukin fjárframlög til alþjóðastofnana, hjálparstofnana og frjálsra félagasamtaka sem starfa á svæðinu, sem og framlög í formi útsendra starfsmanna friðargæslunnar.
Samskipti palestínskra stjórnvalda við erlend ríki lúta bráðabirgðasamningi Ísraels og Palestínu um Vesturbakkann og Gaza frá 28. september 1995. Samningurinn byggir á Oslóarsamkomulaginu svokallaða en samkvæmt honum er palestínskum stjórnvöldum heimilt að gera efnahagssamninga, samninga um þróunaraðstoð og samninga á sviði menningar, vísinda og menntunar við erlend ríki og alþjóðastofnanir. Gert er ráð fyrir samskiptum palestínskra stjórnvalda við fulltrúa erlendra ríkja og alþjóðastofnana í þessu skyni.