Viðburðir á Degi umhverfisins
Boðað hefur verið til nokkurra viðburða á Degi umhverfisins, föstudaginn 25. apríl. Umhverfisráðuneytið boðar til uppákomu í Perlunni og hér er birtur listi yfir aðra viðburði sem umhverfisráðuneytið hefur vitneskju um.
Dagur umhverfisins í Perlunni
Umhverfisráðuneytið efnir til samkomu í Perlunni sem hefst kl. 13:30. Þar verða veittar viðurkenningar fyrir gott starf á sviði umhverfismála. Annars vegar veitir umhverfisráðherra fyrirtæki viðurkenninguna Kuðunginn og hins vegar veitir ráðherra viðurkenningu fyrir góðan árangur í verkefnasamkeppni á meðal grunnskólabarna. Þá afhendir Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra Vigdísi Finnbogadóttur, verndara Landverndar, fræðsluritið Skref fyrir skref. Ritið er gefið út í samvinnu umhverfisráðuneytisins og Landverndar. Við lok samkomunnar verður sýningin Vistvænn lífsstíll opnuð. Hún verður opin í Perlunni til kl. 17:00 á Degi umhverfisins og laugardaginn 26. apríl frá kl. 11:00 til kl. 17:00.
Tillögur um gestastofur í Vatnajökulsþjóðgarði
Kynntar verða vinningstillögur úr arkitektasamkeppni sem efnt var til vegna byggingar gestastofa í Vatnajökulsþjóðgarði. Sýningin er haldin á Háskólatorgi Háskóla Íslands og hefst klukkan 16, en eftir verðlaunaafhendingu verða tillögurnar sem bárust til sýningar fram til 10. maí.
Gestastofur í Vatnajökulsþjóðgarði verða alls sex, þar af hafa tvær þegar verið byggðar í Skaftafelli og í Ásbyrgi en fjórar nýjar stofur verða byggðar á næstu fimm árum. Sú fyrsta rís á Skriðuklaustri og hefjast framkvæmdir við hana síðla sumars. Arkitektasamkeppnin beindist einkum að hönnun hennar en einnig var beðið um hugmyndir að hinum gestastofunun þremur en þær verða á Kirkjubæjarklaustri, við Mývatn og á Höfn í Hornafirði. Hver gestastofa verður milli 500 og 600 fermetrar og er áætlaður byggingarkostnaður hverrar fyrir sig um 170 milljónir.
Stefnt er að því að Vatnajökulsþjóðgarður verði formlega stofnaður í júní á þessu ári, en hann verður stærsti þjóðgarður í Evrópu.
Er svifrykið að kæfa okkur?
Málþing Félags umhverfisfræðinga á Íslandi um vistvænan lífsstíl, samgöngur og loftgæði. Yale, fundarsalur Radison SAS, Hótel Sögu, 2. hæð. Kl. 15:00-17:30.
Dagskrá:
Setning. Eygerður Margrétardóttir, stjórnarkona í Félagi umhverfisfræðinga á Íslandi.
Upp úr hjólfarinu. Um hjólreiðar og hlutverk heimspekinnar. Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands.
Loftgæði, lungu og heilsa. Sigurður Þór Sigurðarson, læknir.
Loftgæði í Reykjavík. Anna Rósa Böðvarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi á Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar.
Visthæfar samgöngur. Pálmi Randversson, sérfræðingur í samgöngumálum á Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar.
Umræður.
Fundarstjóri verður Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður Félags umhverfisfræðingar á Íslandi.
Dagur umhverfisins – Sveitarfélagið Hornafjörður
Sveitarfélagið Hornafjörður boðar til fundar um umhverfismál. Fyrri hluti fundarins fer fram í Freysnesi. Mætin við Nýheima kl. 7:45 og ekið með Guðbrandi í Freysnes. Þar ávarpar m.a. Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri fundinn. Flutt verða erindi um áherslur í Skaftafelli, náttúruskóla, Perluhópinn og undirskriftir verndaráætlunar. Umhverfisverðlaun afhent.
Eftir mat, kl. 12:15, verður ekið aftur til Hafnar. Þar hefst fundur kl. 14:00 og m.a. flutt erindi um Nýheima, umhverfisvernd og ferðaþjónustu, umhverfisvernd og leikskólastarf og umhverfisvænan heilsuleikskóla.
Dagur umhverfisins – Árborg
Í sveitarfélaginu Árborg verður Dagur umhverfisins tengdur upphafi hreinsunarátaks í sveitarfélaginu. Í tilefni dagsins verða afhent umhverfisverðlaun Árborgar 2008. Verðlaunin verða afhent í Rauða húsinu á Eyrarbakka kl. 17:00 og þá verður einnig hreinsunarátaki hleypt af stokkunum.
Eftirtaldir aðilar hljóta umhverfisverðlaun 2008:
a) Sem einstaklingur Séra Gunnar Björnsson sóknarprestur á Selfossi fyrir mikla elju og dugnað að fræða unga sem aldna í ræðu og riti um að ganga vel um náttúruna og ganga á undan með góðu fordæmi.
b) Sundfélag Selfoss fyrir gott starf á undanförnum árum að halda miðbæ Selfoss hreinum og snyrtilegum um helgar.
c) Sem fyrirtæki Matvælastofnun fyrir góðan frágang á lóð og umhverfi.