OECD: Efnahagslegt gildi umhverfisverndar og horfur til 2030
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra sat ráðherrafund OECD ríkjanna í París 28.-29. apríl. Meginviðfangsefni fundarins var að ræða nýútkomna skýrslu OECD um stöðu umhverfismála og horfur fram til ársins 2030. Í skýrslunni er sérstaklega fjallað um fimm brýn verkefni á sviði umhverfismála; loftslagsbreytingar af manna völdum, vernd líffræðilegrar fjölbreytni, vatnsvernd, loftgæði, og meðhöndlun úrgangs og hættulegra efna.
Niðurstöður skýrslunnar eru afdráttarlausar. Þar segir að mjög brýnt sé að grípa strax til veigamikilla aðgerða á öllum þessum sviðum. Slíkar aðgerðir hafi í för með sér verulegan kostnað en hann sé mun minni en kostnaðurinn sem þjóðir heims munu bera á næstu árum og áratugum, ef ekkert verður að gert. Því er spáð að heimsframleiðsla muni tvöfaldast til 2030 en kostnaður af nauðsynlegum aðgerðum á sviði umhverfismála muni aðeins minnka þann vöxt um 1%. Aðgerðir kalla á alþjóðlega samstöðu og samvinnu iðnríkja og þróunarríkja auk samræmingar og samvinnu ráðuneyta, stofnana, atvinnulífs og frjálsra félagasamtaka innan ríkja.
Ráðherrafundinn sátu nú í fyrsta sinn ráðherrar stórra þróunarríkja eins og Kína, Brasilíu og Indónesíu, en þau eru nú ásamt fleiri þróunarríkjum í aðildarviðræðum við OECD. Nánara samstarf við ríki í örum vexti lofar góðu fyrir þau stóru verkefni sem ríki heims þurfa að ná samstöðu um á næstu misserum en þar ber aðgerðir gegn loftslagsbreytingum hæst.
Á fundinum fagnaði umhverfisráðherra skýrslunni OECD sem mikilvægu framlagi til umræðunnar um efnahagslegt gildi umhverfisverndar og þess að meta langtíma efnhagsáhrif þess að grípa ekki til aðgerða nú þegar, auk þess að benda á hagkvæmar leiðir að markmiðum. Góð greining efnahagslegra áhrifa væri í mörgum tilvikum forsenda þess að ríki heims gæti náð samkomulagi um aðgerðir og verkaskiptingu. Ráðherra taldi nauðsynlegt að ákvarðanir alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) tækju í ríkari mæli tillit til viðskipta milli landa sem hvettu til notkunar nýrrar umhverfisvænni tækni og minni notkunar kolefniseldsneytis. Mikilvægt væri að greiða fyrir því að ný tækni á sviði orkuvinnslu og orkunýtingar flyttist til þróunarríkja og benti í því sambandi á möguleika jarðhitanýtingar í mörgum þróunarríkjum, sérþekkingu Íslendinga á nýtingu jarðhita og nefndi sem dæmi jarðhitaverkefni með þátttöku íslenskra fyrirtækja víða um heim. Ljóst væri að á þessum sviðum væru margvísleg viðskiptatækifæri sem stuðluðu að minni losun gróðurhúsalofttegunda og markmiðum loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.
Umhverfisráðherra tók einnig þátt í hringborðsumræðum ráðherra, sérfræðinga og fulltrúa viðskiptalífsins í höfuðstöðvum OECD um leiðir til að greiða fyrir notkun umhverfisvænnar tækni við orkuframleiðslu í heiminum.