Auglýsing um innritun í framhaldsskóla 2008
Umsóknarfrestur um nám í dagskóla á haustönn 2008 er til miðnættis miðvikudaginn 11. júní. Innritunin fer fram á netinu og hefst 14. maí. Rafrænt umsóknareyðublað ásamt upplýsingum um innritunina er að finna á menntagatt.is/innritun. Þar eru einnig upplýsingar um nám í framhaldsskólum og námsframboð.
Nemendur sem ljúka 10. bekk 2008
Nemendur í 10. bekk grunnskóla fá afhent bréf í grunnskólunum með leiðbeiningum og veflykli sem opnar þeim aðgang að innrituninni. Forráðamenn þeirra fá einnig bréf frá ráðuneytinu með upplýsingum um innritunina.
Aðrir umsækjendur um nám í dagskóla
Umsækjendur sem ekki hafa veflykil geta sótt hann á menntagatt.is/innritun. Þegar umsækjendur hafa fengið veflykil opnast þeim aðgangur að innrituninni. Nemendum sem koma erlendis frá er einnig bent á að setja sig í samband við þá skóla sem þeir hafa áhuga á að sækja um.
Umsóknir um nám í kvöldskóla og fjarnám
Innritun í kvöldskóla, fjarnám og annað en nám í dagskóla fer fram í þeim framhaldsskólum sem hafa það í boði. Skólarnir auglýsa umsóknarfrest sjálfir og leggja til umsóknareyðublöð. Umsækjendum er bent á að snúa sér til viðkomandi skóla. Upplýsingar um framhaldsskólana má finna á menntagatt.is/innritun.