Áhrif frekari stóriðjuframkvæmda
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 8. maí 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Margvíslegar stóriðjuframkvæmdir eru til skoðunar á Íslandi sem byggja á samstarfi fjölþjóðlegra fyrirtækja og innlendra orkuveita.
Í rammagrein 1 í þjóðhagsskýrslu fjármálaráðuneytisins er greint frá þeim helstu og mati á líklegum áhrifum þeirra á þjóðarbúskapinn á komandi árum, ef af þeim yrði. Helstu verkefni eru sem hér segir:
- Álver Alcoa á Bakka
- Stækkun álvers Alcan í Straumsvík
- Hreinkísilverksmiðja Becromal á Íslandi í Þorlákshöfn
- Hreinkísilverksmiðja bandarískra aðila í Þorlákshöfn
Hafa ber í huga að um yrði að ræða langan framkvæmdatíma, frá næsta ári til 2015. Á næstu átta árum myndu framkvæmdirnar í heild hafa í för með sér fjárfestingu sem næmi 5 - 6% af landsframleiðslu á ári frá 2009 til 2011 en það hlutfall færi síðan lækkandi fram til ársins 2015 þegar umræddum framkvæmdum
myndi ljúka.
Gera má ráð fyrir að árlegur hagvöxtur yrði 1,0 til 1,5 prósent meiri árin 2009 til 2011 en kemur fram í meginspá. Þau ár myndi aukin atvinnuvegafjárfesting drífa hagvöxtinn. Spáð er að framleiðsluslaki myndist í hagkerfinu næstu ár og því ættu framkvæmdirnar að rúmast innan þanþols hagkerfisins.
Á seinni hluta tímabilsins, árin 2012 til 2015, yrði aukning hagvaxtar minni þegar færi saman mikill vöxtur í útflutningi en samdráttur í fjárfestingu eftir að mesti þungi framkvæmdanna er liðinn.
Við lok tímabilsins yrði virði útflutnings iðnvarnings nær tvöfalt meira en það er í dag og þrátt fyrir mikla aukningu í innflutningi væri kominn umtalsverður afgangur á vöruviðskiptum.
Taka ber fram að margir óvissuþættir tengjast því hvort af þessum verkefnum verður og áætluðum kostnaði við þau.