Hoppa yfir valmynd
9. maí 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Áhrif frekari stóriðjuframkvæmda

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 8. maí 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Margvíslegar stóriðjuframkvæmdir eru til skoðunar á Íslandi sem byggja á samstarfi fjölþjóðlegra fyrirtækja og innlendra orkuveita.

Í rammagrein 1 í þjóðhagsskýrslu fjármálaráðuneytisins er greint frá þeim helstu og mati á líklegum áhrifum þeirra á þjóðarbúskapinn á komandi árum, ef af þeim yrði. Helstu verkefni eru sem hér segir:

  • Álver Alcoa á Bakka
  • Stækkun álvers Alcan í Straumsvík
  • Hreinkísilverksmiðja Becromal á Íslandi í Þorlákshöfn
  • Hreinkísilverksmiðja bandarískra aðila í Þorlákshöfn

Hafa ber í huga að um yrði að ræða langan framkvæmdatíma, frá næsta ári til 2015. Á næstu átta árum myndu framkvæmdirnar í heild hafa í för með sér fjárfestingu sem næmi 5 - 6% af landsframleiðslu á ári frá 2009 til 2011 en það hlutfall færi síðan lækkandi fram til ársins 2015 þegar umræddum framkvæmdum
myndi ljúka.

Hagvöxtur með og án frekari stóriðjuframkvæmda 2008-2015

Gera má ráð fyrir að árlegur hagvöxtur yrði 1,0 til 1,5 prósent meiri árin 2009 til 2011 en kemur fram í meginspá. Þau ár myndi aukin atvinnuvegafjárfesting drífa hagvöxtinn. Spáð er að framleiðsluslaki myndist í hagkerfinu næstu ár og því ættu framkvæmdirnar að rúmast innan þanþols hagkerfisins.

Á seinni hluta tímabilsins, árin 2012 til 2015, yrði aukning hagvaxtar minni þegar færi saman mikill vöxtur í útflutningi en samdráttur í fjárfestingu eftir að mesti þungi framkvæmdanna er liðinn.

Við lok tímabilsins yrði virði útflutnings iðnvarnings nær tvöfalt meira en það er í dag og þrátt fyrir mikla aukningu í innflutningi væri kominn umtalsverður afgangur á vöruviðskiptum.

Taka ber fram að margir óvissuþættir tengjast því hvort af þessum verkefnum verður og áætluðum kostnaði við þau.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta