Hoppa yfir valmynd
9. maí 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Dagur barnsins - forsetafrúin verndari

Þann 25. maí næstkomandi verður haldinn í fyrsta sinn sérstakur Dagur barnsins. Áformað er að slíkur dagur verði haldinn árlega í framtíðinni. Dagurinn er haldinn samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að tillögu Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra. Dorrit Moussaieff forsetafrú varð við ósk ráðherra um að gerast verndari dagsins.

Að þessu sinni verður yfirskrift dagsins Gleði og samvera. Efnt hefur verið til samkeppni sem opin er öllum börnum og ungmennum um merki og stef dagsins. Á heimasíðunni www.dagurbarnsins.is má finna nánari upplýsingar um samkeppnina, hugmyndabanka sem sveitarfélög landsins skipuleggja og annað efni sem tengist yfirskrift dagsins, Gleði og samvera.

Markmiðið með því að helga börnum sérstakan dag er að hvetja til samveru barna og fjölskyldna þeirra, skapa tækifæri til að minna á þessa mikilvægustu þegna landsins, koma málefnum barna á framfæri og leyfa röddum þeirra að hljóma.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið annast undirbúning dagsins og hefur efnt til samstarfs við fjölmarga aðila um margþætt viðfangsefni. Meðal samstarfsaðila eru Biskupsstofa, umboðsmaður barna og ýmis félög og samtök sem koma að viðburðum í tengslum við daginn. Nánari kynning á dagskrárliðum mun koma fram í fjölmiðlum á næstu vikum. Það er von ráðuneytisins að Dagur barnsins verði efnisríkur hátíðisdagur íslenskra barna, fjölskyldna þeirra og allra sem bera hag æskunnar fyrir brjósti.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur skipað framkvæmdanefnd sem meðal annars tekur við upplýsingum frá þeim sem hyggjast standa fyrir viðburðum á degi barnsins. Þessar upplýsingar verða settar inn á heimasíðuna www.dagurbarnsins.is þar sem allir áhugasamir geta kynnt sér hvað í boði verður. Þeir sem vilja kynna fyrirhugaða viðburði á heimasíðunni þurfa að senda inn upplýsingar fyrir 20. maí.

Nánari upplýsingar um dag barnsins veitir Maríanna Friðjónsdóttir framkvæmdastjóri verkefnisins. Hægt er að hafa samband við hana á netfangið [email protected] og í síma 663 7151.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta