Afhending trúnaðarbréfa í Laos og Suður-Kóreu
Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra, hefur nýverið afhent trúnaðarbréf sín sem sendiherra Íslands í Laos og Suður-Kóreu, með aðsetur í Beijing.
Þann 6. maí sl. afhenti Gunnar Snorri Choummaly Xayasone, forseta Laos , trúnaðarbréf sitt en Laos hefur á undanförnum árum lagt áherslu á nýtingu fallvatna sinna og selur nú nágrannaríkjum sínum rafmagn. Jarðhiti sem er til staðar í landinu hefur hins vegar lítt verið kannaður. Sýndi forseti áhuga á að efla tengsl orkumálasérfræðinga landanna tveggja. Forseti tók jafnframt fram að ástæða væri til þess fyrir ríki sem hefðu verið nýlendur að standa saman á alþjóðavettvangi. Í því samhengi vildi hann taka til vinsamlegrar athugunar stuðning við framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þetta var í fyrsta skipti sem íslenskur sendiherra afhendir trúnaðarbréf í Laos.
Þann 13. maí sl. afhenti Gunnar Snorri Lee Myung-Bak forseta Suður-Kóreu trúnaðarbréf sitt. Einnig átti hann fundi með vara-utanríkisráðherra og embættismönnum um samskipti landanna, rekstur nýlegs fríverslunarsamnings, tvísköttunarsamning og framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna. Undirritaði sendiherra tvísköttunarsamning milli Íslands og Suður-Kóreu tveimur dögum síðar.
Íslenski leikhópurinn Vesturport er nú á sýningarferðalagi í Suður-Kóreu og sýnir m.a. Hamskiptin eftir Kafka í Seoul á föstudag. (link á www.vesturport.com)