Hoppa yfir valmynd
15. maí 2008 Dómsmálaráðuneytið

Lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum

Undir lok febrúar á þessu ári var ljóst, að lögreglustjórinn á Suðurnesjum taldi sig ekki geta rekið embætti sitt innan fjárheimilda ársins 2008 eins og þær eru í fjárlögum – munaði þar rúmum 200 milljónum króna.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu kom þetta í opna skjöldu, þar sem fjárlagatillögur embættisins fyrir árið 2008 sýndu enga slíka fjárvöntun.

Stóð ráðuneytið í raun frammi fyrir sambærilegu viðfangsefni og árið 2007, en þá var lögð fyrir það tillaga að rekstraráætlun embættisins með um 200 milljón króna halla. Þá fól ráðuneytið nefnd sérfróðra manna að fara í saumana á rekstri og fjárumsýslu embættisins. Tókst að draga úr hallanum en hann varð þó um 80 m. kr. í árslok.

Nefndin taldi, að bæta þyrfti rekstrarskilyrði embættisins og aðskilja bæri fjárhag einstakra verkþátta þess og fella þá að minnsta kosti fjárhaglega undir viðkomandi ráðuneyti, það er að lögregla og landamæravarsla yrði hjá dóms- og kirkjumálaráðuneyti, tollamál hjá fjármálaráðuneyti og flugöryggismál hjá samgönguráðuneyti.

Ákvörðun ráðuneytisins um skiptingu embættisins byggist á sömu sjónarmiðum og nefndarinnar. Meginrökin fyrir þessari skiptingu felast í faglegri verkaskiptingu innan stjórnarráðsins. Er eðlilegt, að gagnvart þessu embætti eins og endranær beri hvert ráðuneyti ábyrgð á sínum verkþætti bæði stjórnsýslulega og fjárhagslega. Núverandi skipan má rekja til dvalar varnarliðsins, sem lauk í september 2006. Hún byggist hvorki á faglegum rökum um rekstur flugvalla né löggæslu eða landamæravörslu á þeim.

Ráðuneytið hefur lagt til, að verkskil innan embættisins verði 1. júlí 2008. Í bréfi dags. 13. maí tekur lögreglustjórinn á Suðurnesjum undir, að miðað verði við þá dagsetningu við aðskilnað hinna ólíku verkþátta.

Hvernig sem á málið er litið er óhjákvæmilegt að leiða lögreglustjóraembættið úr árlegum fjárhagsvanda, en hann veikir innviði þess meira en nokkuð annað.

Ráðuneytið hefur lagt fyrir lögreglustjóra, að embætti hans sé rekið innan fjárheimilda og gjöld umfram þær heimildir verði langt innan við 200 m. kr. í lok þessa árs.

Óþarft er að tíunda fyrir þingmönnum, að fjárlög beri að virða. Ríkisendurskoðun hefur auk þess ítrekað hvatt til strangs fjárlagaeftirlits ráðuneyta og aðhalds að forstöðumönnum ríkisstofnana.

Um skiptingu verkþátta innan Suðurnesjaembættisins var haft samráð við fjármálaráðuneyti og samgönguráðuneyti. Hvort ráðuneyti um sig ákveður, hvernig það hagar framkvæmd verkefna á sínu sviði.

Alþingi samþykkti nýlega breytingar á tollalögum og stækkun tollumdæma. Þar er meðal annars mælt fyrir um, að tollstjórn, sem áður var í höndum sýslumanna í Stykkishólmi, Borgarnesi og á Akranesi falli undir tollstjórann í Reykjavík.  Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fer ekki með tollamál. Það er því síður en svo einsdæmi, að lögreglustjóri annist ekki tollstjórn.

Skipan tollamála á Suðurnesjum er í höndum fjármálaráðherra og alþingis, ef og þegar til lagabreytinga kemur. Ríkisstjórnin hefur þegar afgreitt málið fyrir sitt leyti.

Í umræðum um stærð lögregluumdæma hef ég lýst þeirri skoðun, að hvorki skuli haggað við skipan mála á höfuðborgarsvæðinu né Suðurnesjum við frekari stækkun.

Forystumenn sveitarstjórna á Suðurnesjum og embættismenn dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hafa rætt leiðir til að efla löggæslu í umdæminu. Er afar brýnt, að þannig verði búið um hnúta, að lögreglustjóri á Suðurnesjum geti einbeitt sér að því að efla löggæslu og landamæravörslu.

Við framkvæmd skiptingar embættisins verður sérstaklega hugað að réttarstöðu starfsmanna. Ráðuneytið hefur lýst vilja sínum til að fá óháðan lögfræðing til að gæta hagsmuna þeirra. Um breytingar í opinberum rekstri gilda fyrirmæli í lögum og reglum og verður að sjálfsögðu farið að þeim.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta