Hoppa yfir valmynd
16. maí 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjármagnstekjuskattur

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 15. maí 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í nýrri þjóðhagsskýrslu fjármálaráðuneytisins er fjallað um fjármagnstekjuskattinn sem var tekinn upp hérlendis árið 1997.

Fram að því voru vaxtatekjur einstaklinga skattfrjálsar en aðrar fjármagnstekjur þeirra báru almennan tekjuskatt. Hinum nýja skatti var m.a. ætlað að samræma og einfalda skattlagningu hinna ýmsu fjármagnsstekna og þjóna markmiðum um jafnari tekjudreifingu, aukna áhættu-fjárfestingu í atvinnulífi og tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Fjármagnstekjuskatturinn hefur frá upphafi verið flatur skattur, 10%.

Í samanburði við önnur lönd er þetta hlutfall fremur lágt, skattstofninn breiður og regluverkið einfalt. Fyrri myndin sýnir að skatturinn hefur skipað æ stærri sess í tekjum ríkissjóðs á þessum áratug, allt frá 1,7% af skatttekjum í byrjun upp í 6,0% árið 2006. Áætlað er að fjármagnstekjuskattur skili ríflega 30 milljörðum króna í ríkissjóð í ár.

Fjármagnstekjuskattur 1997-2008

Fjármagnstekjuskatturinn leggst fyrst og fremst á einstaklinga, en einnig þá lögaðila sem eru undanþegnir almennri skattskyldu skv. 4. gr. skattalaga og ríkissjóð sjálfan. Fjármagnstekjur lögaðila eru hins vegar ekki aðgreindar frá öðrum skattskyldum rekstrartekjum þeirra og bera því 18% tekjuskatt.

Stofn fjármagnstekjuskattsins eru eignatekjur hvers konar, svo sem vaxtatekjur, arður, leigutekjur og söluhagnaður. Seinni myndin sýnir hvernig vægi þessara fjögurra flokka í samsetningu heildarskattstofnsins hjá einstaklingum hefur þróast á sl. áratug.

Dregið hefur úr hlut vaxtatekna þrátt fyrir mikinn vöxt þeirra á undanförnum árum. Í dag eru vaxtatekjurnar aðeins liðlega fimmtungur skattstofnsins og rúmur helmingur þar af eru vextir af bankainnistæðum. Fjölgun almenningshlutafélaga og tilurð virks hlutafjármarkaðar eftir 1996 leiddi til vaxandi fjármagnstekna einstaklinga úr þeirri átt. Það er einkum mikil aukning söluhagnaðar af hlutabréfum sem hefur breytt mynstrinu undanfarin ár.

Fjármagnstekjuskattur einstaklinga eftir tegundum 1997-2006

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta