Íslensk stjórnvöld veita Kínverjum aðstoð vegna náttúruhamfaranna
Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að veita Kínverjum aðstoð að andvirði um 7,8 milljóna ísl. kr. vegna náttúruhamfaranna í Sichuan-héraði í suðurvesturhluta Kína á mánudag. Jarðskjálfti sem mældist nær 7,9 á Richter, reið yfir héraðið og er sagður vera mannskæðasti skjálfti í landinu í þrjá áratugi. Rennur féð til hjálparstarfs kínverska Rauða krossins sem sinnt hefur neyðarhjálp í kjölfar skjálftans. Ákvörðun um fjárframlagið var tekin að höfðu samráði við kínversk stjórnvöld.
Yfirvöld í Kína hafa greint frá því að líklegt sé að rúmlega 50.000 manns hafi látið lífið í jarðskjálftanum í suðvesturhluta landsins. Talið er að tugir þúsunda manna séu enn grafnir lifandi undir húsarústum í landinu en björgunarstarf gengur víða hægt, m.a. vegna hættu á frekara hruni bygginga.
Mörg ríki hafa þegar lýst því yfir að þau muni veita aðstoð vegna jarðskjálftanna. Má þar nefna að dönsk yfirvöld veita sem svarar til 12 milljóna ísl. kr. til kínverska Rauða krossins og norsk stjórnvöld hyggjast veita sem svarar til 305 milljóna ísl. kr. sem einnig munu renna til kínverska Rauða krossins. Þá hafa bresk yfirvöld lýst yfir að þau muni veita sem svarar til 151 milljónar ísl. kr, þýsk stjórnvöld sem svarar til 60 milljóna kr. og pólsk yfirvöld 7,8 milljóna ísl. kr.