Hoppa yfir valmynd
19. maí 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Lágtekjuhlutfall á Íslandi með því lægsta í Evrópu

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 15. maí 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Nýlega birti Hagstofa Íslands skýrslu um lágtekjumörk og tekjudreifingu fyrir árin 2003-2005.

Skýrslan er greinargerð um lífskjararannsókn á vegum Evrópusambandsins sem Hagstofan tekur þátt í.

Samkvæmt skilgreiningu ESB voru 9,6% landsmanna undir lágtekjumörkum árið 2005 en miðað er við 60% af viðmiðunartekjum. Ef miðað væri við 50% af viðmiðunartekjum, eins og OECD gerir, væri hlutfallið 5,2%. Þessar tölur eru metnar út frá úrtaki og því háðar vikmörkum sem eru nálægt 1%. Vikmörkin sem eru mælikvarði á óvissu miðast við að 95% líkur séu á því að rétt gildi sé innan þeirra. Lágtekjuhlutfall (hlutfall landsmanna með ráðstöfunartekjur á neyslueiningu undir lágtekjumörkum) var lægst á Íslandi, í Hollandi og Tékklandi af 30 Evrópulöndum árið 2005.

Lágtekjuhlutfall er mismunandi eftir aldri eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Fyrir þá sem eru yngri en 15 ára var hlutfallið 12,1% árið 2005, með vikmörkum sem eru ±2,3%. Þetta er hinn hefðbundni mælikvarði á fátækt barna. Hlutfallið er nær óbreytt fyrir fólk á aldrinum 16-24 ára en þess ber að geta að hluti þess notar lán frá LÍN sér til framfærslu en þau lán teljast ekki til tekna. Hlutfallið fer síðan lækkandi eftir aldri fram til hópsins sem er eldri en 65 ára.

Hlutfall undir lágtekjumörkum

Lágtekjuhlutfall er mjög mismunandi eftir félagslegum aðstæðum. Hlutfallið er nokkru hærra hjá fólki með börn en án barna. Þetta á einkum við um einstæða foreldra þar sem yfir fjórðungur telst vera neðan við mörkin, að vísu með ±9,5% vikmörkum. Hlutfallið er 10,3% fyrir þá sem farnir eru á eftirlaun, nokkru minna en fyrir allan hópinn sem er eldri en 65 ára. Hlutfall undir lágtekjumörkum er hæst hjá þeim sem eru eldri en 65 ára og búa einir. Þar er það 27,6% ±6,8%. Þar sem tveir búa saman og annar er eldri en 65 ára er hlutfallið hins vegar 3,9% ±2,0%.

Bætur hvers kyns, bæði innan skattkerfisins og utan, skipta verulegu máli í afkomu tekjulágra. Ef öllum félagslegum greiðslum er sleppt (og raunar greiðslum úr lífeyrissjóðum einnig) telst rúmur fjórðungur landsmanna vera neðan við lágtekjumörk en ekki 9,6%. Fjórðungur barna telst einnig vera neðan við lágtekjumörkin ef ekki eru teknar með félagslegar greiðslur. Þetta segir með öðrum orðum að tilfærslur á vegum opinberra aðila (og lífeyrissjóða) fækkar þeim sem eru neðan við lágtekjumörk um meira en helming.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta