Hoppa yfir valmynd
20. maí 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nýjar leiðir í upplýsingamiðlun til innflytjenda

Frá opnun heimasíðu Fjölmenningarseturs
Frá opnun heimasíðu Fjölmenningarseturs

Nýr vefur Fjölmenningarseturs var tekinn formlega í notkun í dag. Á vefnum eru samræmdar upplýsingar til innflytjenda á fjórum tungumálum um þjónustu ríkis og sveitarfélaga og ýmis hagnýt atriði fyrir þá sem eru að stíga fyrstu skrefin á íslenskri grund.

Hrannar Björn Arnarsson, aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, og formaður innflytjendaráðs, opnaði vefinn formlega kl. 14.00 í dag. Slóðir að vefnum eru tvær: www.mcc.is og www.fjolmenningarsetur.is

Vefurinn er unninn í samstarfi við upplýsingavefinn Ísland.is og er í samræmi við þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda. Þar birtast hagnýtar upplýsingar um fyrstu skref innflytjenda á íslenskri grund, ásamt fróðleik um íslenskt samfélag, land og þjóð. Upplýsingarnar nýtast jafnt fólki af erlendum uppruna sem flyst til landsins sem og bornum og barnfæddum Íslendingum sem flytjast milli sveitarfélaga.

Til að byrja með verða á vefnum upplýsingar á fjórum tungumálum, ensku, pólsku, serbnesku/króatísku og taílensku, auk íslensku. Hægt er að birta íslenska textann samhliða þeim erlenda á hverjum stað. Með þessu móti nýtast upplýsingarnar innflytjendum til íslenskunáms og íslenskumælandi ráðgjöfum við leiðbeiningar.

Á vefnum er að finna hljóðskrár sem lesa upp textann á hverjum stað. Þetta gefur meðal annars þeim innflytjendum sem skilja talað mál en ekki ritað möguleika á upplýsingum. Orðskýringar verða á vefnum þar sem nauðsynlegur orðaforði í samskiptum við hið opinbera er útskýrður, svo sem fæðingarorlof, heildarlaun og álagning. Grunnurinn að orðskýringunum var unninn í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar og verið er að þýða þær yfir á ensku, pólsku, serbnesku/króatísku og taílensku.

Lögð verður áhersla á að miðla upplýsingum um íslenskunámskeið alls staðar á landinu, auk fræðslunámskeiða hvers kyns og túlkaþjónustu. Einnig er áhersla á miðlun upplýsinga um hvar þjónustu er að finna í hverju sveitarfélagi. Vefurinn er ekki kominn að fullu í notkun en við opnun hans verður hægt að sjá sýnishorn af því hvernig hann mun virka með því að velja Austurland og síðan sveitarfélögin Fjarðabyggð eða Fljótsdalshérað og birtast þá nánari upplýsingar með ljósmyndum af öllum helstu stofnunum sveitarfélaganna.

Forsenda þess að vefurinn þjóni hlutverki sínu sem best er samstarf við sem flesta og eru athugasemdir og hugmyndir um frekari þróun hans vel þegnar.

Allar nánari upplýsingar veita Ari Klængur Jónsson, 821 1357, [email protected] og Elsa Arnardóttir, 694 1881, [email protected]

Athugasemdir eða uppástungur sendast á [email protected]



Frá opnun heimasíðu Fjölmenningarseturs
Frá opnun heimasíðu Fjölmenningarseturs
Frá opnun heimasíðu Fjölmenningarseturs
Frá opnun heimasíðu Fjölmenningarseturs

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta