Hoppa yfir valmynd
22. maí 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aðalfundur Öldrunarráðs Íslands

Góðir fundarmenn.

Ég þakka Öldrunarráði Íslands gott boð um að ávarpa aðalfund þess og hitta þann breiða hóp sem á sæti í ráðinu. Fyrir mig er mikils virði að hitta sem flesta sem á einhvern hátt koma að málefnum aldraðra þar sem stutt er síðan að heildarábyrgð á málaflokknum færðist á hendur félags- og tryggingamálaráðherra. Fyrir ykkur er vonandi áhugavert að heyra hvaða línur ég vil leggja og um áherslur mínar í málaflokknum til framtíðar.

Ég verð að segja að eftir því sem ég hef kynnst betur málefnum aldraðra á þeim mánuðum sem liðnir eru frá nýrri skipan hef ég æ oftar furðað mig á stöðu málaflokksins, skipulagi hans og þeim áherslum sem fylgt hefur verið á liðnum árum og áratugum. Mér finnst augljóst að mörgu þurfi að breyta og margt að bæta og mér virðist sem við Íslendingar stöndum aftarlega í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir í því sem snýr að þjónustu við aldraða. Þær skipulagsbreytingar sem gerðar voru með flutningi á heildarábyrgð málaflokksins frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytisins voru skref í rétta átt og til marks um ákveðna hugarfarsbreytingu þar sem horfið er frá þeim sjúkdómsmiðuðu áherslum sem einkennt hafa öldrunarþjónustuna. Ég tel þó að ganga þurfi lengra í breytingunum eins og ég kem nánar að á eftir, en ekki síður virðist mér að margir þurfi að leggjast á eitt til að koma öldrunarþjónustunni í nútímalegt horf þar sem hér er um að ræða risastórt skip sem tekur sinn tíma að snúa.

Á ráðherraferli mínum hef ég kynnst náið skipulagi málefna fatlaðra og tekið þátt í breytingum og uppbyggingu á því sviði. Ég tel mér óhætt að segja að skipulag þjónustu við fatlaða stendur langtum framar þjónustu við aldraða. Þar er miklu meiri áhersla lögð á þjónustu í samræmi við einstaklingsbundnar þarfir og virðingu fyrir einstaklingnum og réttindum hans. Þessir málaflokkar eru þó í eðli sínu um margt líkir þegar horft er á þarfir þeirra sem þurfa á þjónustu að halda. Það er hins vegar eins og himinn og haf hafi aðskilið þá sem hafa lagt áherslur og byggt upp skipulag þessara málaflokka. Reynsla og þekking hefur ekki flust til milli kerfa en málefni fatlaðra hafa notið góðs af því að þar hafa verið dregnir lærdómar af nýbreytni sem vel hefur tekist hjá nágrannaþjóðum okkar. Í málefnum aldraðra virðist sem minna hafi verið litið til reynslu annarra eða lagt upp úr þróun og nýbreytni og aðeins verið um mjög hægfara breytingar að ræða.

 

Góðir gestir.

Ég ætla ekki að ræða hér einungis um hvað var og er heldur frekar hvað verður miðað við mína sýn og áherslur. Þar eru þrjú lykilatriði sem ég ætla að ræða um sérstaklega.

Í fyrsta lagi að framkvæmd allrar öldrunarþjónustu verði færð alfarið á hendur sveitarfélaganna ásamt fjármunum til að sinna verkefninu. Ábyrgð stjórnvalda muni þá einungis felast í stefnumótun og eftirliti.

Í öðru lagi að horfið verði frá því að aðgreina aldraða og þjónustu við þá frá öðrum með sérstökum lögum. Þess í stað verði byggð upp einstaklingsmiðuð þjónusta við aldraða sem aðra á grundvelli almennra laga með sérstakri áherslu á að styðja fólk sem lengst til sjálfstæðrar búsetu.

Í þriðja lagi verði ráðist í sérstakt átak til að tryggja mönnun í öldrunarþjónustu þannig að starfsmannavelta verði minni og nýliðun aukist, meðal annars með áherslu á bætt kjör og aukin tækifæri til menntunar á þessu sviði.

Ég ætla að fara nokkrum orðum um fyrsta atriðið og þá hvers vegna ég tel nauðsynlegt og skynsamlegt að flytja öldrunarþjónustu til sveitarfélaganna. Eins og öldrunarþjónustan hefur verið byggð upp hvetur hún ekki til þess að þjónusta sé veitt á því þjónustustigi sem best hæfir. Hún er ekki í samræmi við þarfir notendanna né skynsamlegar kröfur um nýtingu fjármuna. Sveitarfélögin sem bera ábyrgð á félagsþjónustunni hafa engan fjárhagslega ávinning af því að sinna þjónustunni vel, heldur leiðir það þvert á móti til aukinna útgjalda. Það er þeirra hagur að heilsugæslan sinni heimaþjónustunni sem mest, og að aldraðir fari á dvalar- eða hjúkrunarheimili því þar með ber ríkið ábyrgð á kostnaðinum. Þótt ríkið standi straum af kostnaði vegna heilsugæslu og þar með heimahjúkrun aldraðra er ekki víst að heilsugæslan leggi kapp á að veita mikla og góða heimahjúkrun ef ekki liggur fyrir að fé fylgi. Fyrir vasa heilsugæslunnar kemur betur út að stofnanaþjónustan sinni hinum öldruðu.

Kannanir hafa sýnt að aldraðir vilja búa á eigin vegum á eigin heimili í lengstu lög fái þeir til þess viðeigandi stuðning og þjónustu. Það er fráleitt að þeir þurfi að gjalda fyrir óskilvirkt skipulag með ótímabærri stofnanavistun sem í þokkabót er óhagkvæm fyrir samfélagið í heild.

Ég tel að öldrunarþjónusta væri best komin á hendi sveitarfélaganna í heild sinni. Sveitarfélögin vilja þjónusta íbúa sína sem best og það á að vera þeirra hagur að gera svo. Ef þau bæru heildarábyrgð á þjónustu við aldraða myndu þau skipuleggja hana skynsamlega og í betra samræmi við þarfir íbúanna en nú er. Að mínu mati á því að fela sveitarfélögunum ábyrgð á heilsugæslu og öldrunarstofnunum og auðvitað bæði heimahjúkrun og heimaþjónustu. Þannig verður þjónustukeðjan samfelld og notendum ekki sífellt vísað á milli kerfa með óljósa og illa skilgreinda ábyrgð.

Eins og ég gat um áðan vil ég að horfið verði frá því að aðgreina aldraða og þjónustu við þá frá öðrum með sérstökum lögum en að byggð verði upp einstaklingsmiðuð þjónustu við aldraða á grundvelli almennra laga með sérstakri áherslu á að styðja fólk til sjálfstæðrar búsetu. Ég tel að flutningur aldraðra til sveitarfélaganna muni stuðla að framgangi þess markmiðs að þjónusta sé veitt á grundvelli einstaklingsbundinna þarfa. Því lít ég svo á að hluti af því verkefni að flytja málaflokkinn til sveitarfélaganna eigi að felast í því að fella úr gildi lög um málefni aldraðra og gera nauðsynlegar breytingar á almennri löggjöf sem tryggi öldruðum rétt til þjónustu í samræmi við þarfir sínar á grundvelli almennra laga. Meðal mikilvægra breytinga sem verður að hrinda í framkvæmd er afnám þess fyrirkomulags sem nú tíðkast varðandi greiðsluþátttöku aldraðra vegna stofnanavistunar og margumtalað vasapeningafyrirkomulag sem ég tel til skammar. Þessa breytingu vil ég reyndar gera sem allra fyrst og tel ástæðulaust að bíða þess að öldrunarþjónustan flytjist á hendur sveitarfélaganna.

Þriðja atriðið sem ég ræði hér snýr að mönnun öldrunarþjónustu. Ég nefni það síðast en alls ekki síst. Mannekla og allt of mikil starfsmannavelta hefur verið hlutskipti öldrunarþjónustunnar í langan tíma. Þetta bitnar á öldruðum þar sem afleiðingarnar eru jafnt þær að ekki er hægt að veita eins mikla þjónustu og þörf krefur og eins er ekki hægt að tryggja gæði þjónustunnar þegar fólk staldrar stutt við í starfi. Það hefur litla þýðingu að byggja upp hjúkrunarheimili, þjónustuíbúðir eða önnur úrræði ef starfsfólk skortir til að sinna þjónustunni. Öll þjónusta byggist á starfsfólkinu og því verðum við að gera störf í öldrunarþjónustu aðlaðandi og eftirsóknarverð.

Hér er nauðsynlegt að velta því fyrir sér hvað það er helst sem fær fólk til að helga sig ákveðnu starfi til lengri tíma. Þar eru ýmsir þættir sem skipta máli. Grundvallaratriði er að starfsfólk finni að virðing sé borin fyrir störfum þeirra og að þau séu álitin mikilvæg. Störfin þurfa að vera metin að verðleikum og þar með þarf að virða þau betur í launum. Starfsfólk þarf að búa við góðar vinnuaðstæður sem felur meðal annars í sér að uppbygging úrræða þarf að taka mið af þörfum starfsfólks jafnt og þörfum hinna öldruðu. Hagsmunir beggja fara saman. Þetta sannast til dæmis á því að mönnun hjúkrunarheimila gengur jafnan best þar sem starfsumhverfi og aðstæður eru góðar. Fagmennska starfsfólks eykur virðingu fyrir störfum þess. Þess vegna er nauðsynlegt að bjóða upp á fjölbreytta möguleika til skemmri og lengri menntunar ásamt starfsþjálfun fyrir þá sem starfa í öldrunarþjónustu. Aukin kunnátta og færni starfsfólks eykur starfsánægju jafnframt því að bæta þjónustu og eykur þar með líkur á því að fólk helgi sig starfi sínu til lengri tíma.

 

Góðir fundarmenn.

Nú hef ég rætt um þrjú atriði sem ég tel meðal þeirra stærstu og mikilvægustu þegar við horfum til uppbyggingar öldrunarþjónustu framtíðarinnar. Innan þeirra rúmast auðvitað mörg efni sem snúast um framkvæmd þessarar stefnu og hægt væri að ræða um í löngu máli. Ég ætla aðeins að geta stuttlega um nokkur atriði hér en auðvitað er mér ofarlega í huga að gera þarf gríðarlegt átak í því að bæta aðstæður aldraðra á hjúkrunarheimilum með nauðsynlegum endurbótum á eldri stofnunum. Þar á ég ekki síst við breytingar á fjölbýlum í einbýli með góðu rými fyrir hvern og einn ásamt einkabaðherbergi sem ætti auðvitað að vera sjálfsagt í velmegunarsamfélagi á 21. öld. Til að mæta fækkun hjúkrunarrýma vegna breytinga úr fjölbýli í einbýli er þörf fyrir rúmlega 400 hjúkrunarrými. Jafnframt verða byggð 400 ný hjúkrunarrými í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Gróflega áætlað nemur kostnaður við breytingar fjölbýla í einbýli og áform um fjölgun hjúkrunarrýma allt að 17 milljörðum króna.

Við uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma þarf að byggja í samræmi við nýja hugmyndafræði þar sem umhverfi og aðstæður eru meira í líkingu við það sem við þekkjum í málefnum fatlaðra þar sem öll áhersla er lögð á að skapa sem heimilislegastar aðstæður.

Til að styðja fólk til sjálfstæðrar búsetu sem lengst verður auðvitað að byggja upp miklu öflugri og fjölbreyttari heimaþjónustu en nú stendur fólki til boða og fleiri úrræði á borð við skammtímainnlagnir og dagvistun eða dagþjálfun sem mér finnst betra orð. Málefni heilabilaðra þurfa sérstaka athygli og þörf er fyrir fjölbreytt sértæk úrræði fyrir þann hóp sem við vitum að fer stækkandi.

Ég gæti látið gamminn geysa lengi áfram því eins og þið vitið öll eru verkefni á sviði málefna aldraðra nær óþrjótandi. Ég ætla þó ekki að hafa þetta mikið lengra en vil að lokum óska liðsinnis ykkar sem hér eruð til að snúa því þunga skipi sem öldrunarmálin eru, leggja mér lið við að breyta viðhorfum og áherslum í þessum stóra málaflokki og stuðla að breyttri og betri öldrunarþjónustu sem byggist á virðingu fyrir einstaklingum og mannréttindum hvers og eins.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta