Hoppa yfir valmynd
22. maí 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Þróunarverkefninu Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum ýtt úr vör

Undirritun samnings um þróunarverkefni
Undirritun samnings um þróunarverkefni

Í dag fimmtudaginn 22. maí 2008 undirrituðu Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, Ólafur F. Magnússon borgarstjóri, Kristín Ástgeirsdóttir jafnréttisstýra, Lúðvík Geirsson bæjarstjóri og fulltrúar þriggja sveitarfélaga samstarfssamning um þróunarverkefnið Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum. Þátttökusveitarfélögin eru Akureyri, Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður og Mosfellsbær. Undirritunin fór fram í leikskólanum Hörðuvöllum í Hafnarfirði í kjölfar fyrsta vinnufundar verkefnisins sem er hrint úr vör í tengslum við Dag barnsins sunnudaginn 25. maí næstkomandi. Sjá nánari upplýsingar á vefslóðinni: dagurbarnsins.is

Jafnrétti í skólum - „Það læra börnin sem fyrir þeim er haft“

Þróunarverkefnið miðar að því að auka og efla jafnréttis- og kynjasjónarmið í leikskólum og grunnskólum. Verkefnið felst annars vegar í því að hanna vefsíðu þar sem upplýsingar um jafnréttisfræðslu verða aðgengilegar og að leikskólar og grunnskólar sinni tilraunaverkefnum á sviði jafnréttismála.

Sveitarfélögin hafa tilnefnt leikskóla og grunnskóla sem tilraunaskóla í sínu sveitarfélagi og eru skólarnir farnir að huga að tilraunaverkefnum sem unnin verða á næsta skólaári. Vorið 2009 þegar tilraunaverkefnunum lýkur verða væntanlega til verkefni og fræðsluefni sem nýst geta í jafnréttisfræðslu í íslenskum leikskólum og grunnskólum.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Háskólann á Akureyri, leiðir faghóp sem í eiga sæti fulltrúar frá Félagi leikskólakennara, Félagi grunnskólakennara og Félagi náms- og starfsráðgjafa. Faghópurinn mun veita tilraunaskólum, stýrihópi, verkefnisstjóra og öðrum sem að verkefninu koma faglegan stuðning og ráðleggingar. Hægt að nálgast upplýsingar um verkefnið á heimasíðu verkefnisins: http://jafnretti.felagsmalaraduneyti.is

Ráðinn hefur verið verkefnisstjóri til eins árs með aðsetur á Jafnréttisstofu. Hlutverk hans er að hafa umsjón með söfnun og innsetningu efnis á vefsíðu auk þess að vera tengiliður við tilraunaskólana og aðra sem að verkefninu koma.

Frekari upplýsingar veitir:

Arnfríður Aðalsteinsdóttir, verkefnisstjóri

Jafnréttisstofa, Borgum v/Norðurslóð

600 Akureyri

sími 460 6200 / gsm 899 3480

www.jafnretti.is



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta