Hoppa yfir valmynd
22. maí 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Upplýsingar um móttöku íslenskra stjórnvalda á hópum flóttafólks

Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur til fróðleiks tekið saman upplýsingar um móttöku flóttafólks undanfarin ár í ljósi mikillar opinberrar umræðu undanfarið.

Þáttur íslenskra stjórnvalda við móttöku á flóttafólki í hópum

Rekja má móttöku íslenskra stjórnvalda á flóttafólki í hópum allt til þess að tekið var á móti 52 Ungverjum 1956. Síðan þá hefur verið tekið á móti samtals 481 flóttamanni. Síðan flóttamannaráð, nú flóttamannanefnd, var stofnað 1996 hefur verið tekið næstum árvisst á móti flóttamannahópum. Árin 2005 og 2007 var tekið á móti fólki frá Kólumbíu. Eru það einstæðar mæður, börn þeirra og einhleypar konur sem voru metnar í mikilli áhættu. Verður konum og börnum áfram boðið til landsins í ljósi þess að íslenskar aðstæður, viðhorf til einstæðra foreldra og félagsleg aðstoð við þá þykir mjög jákvæð hér á landi á alþjóðlegum mælikvarða. Reykjavíkurborg tók á móti hópunum 2005 og 2007, en alls hafa tíu sveitarfélög tekið á móti hópum. Það er ríkisstjórn Íslands sem tekur hverju sinni ákvörðun um að taka á móti flóttafólki. Við þá ákvörðun er tekið mið af tillögu flóttamannanefndar. Móttakan og aðstoð fyrsta árið er síðan samstarfsverkefni félags- og tryggingamálaráðuneytis, utanríkisráðuneytis, móttökusveitarfélags og Rauða kross Íslands. Að þessu sinni hefur verði leitað til Akraness.

 

Hverjir teljast flóttamenn?

Samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1951 telst sá vera flóttamaður sem „er utan heimalands síns ? og af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana, og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands; eða þann sem er ríkisfangslaus, og er utan þess lands, þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur, vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki, vegna slíks ótta, hverfa aftur þangað.“

Við lausn á vanda og aðstæðum flóttafólks eru þrjár alþjóðlega viðurkenndar lausnir lagðar til grundvallar:

  1. Flóttafólkið snúi til baka til heimalands þegar aðstæður þar hafa batnað.
  2. Flóttafólkið nái að aðlagast í dvalarlandi/hælislandi.
  3. Flóttafólkið flytjist til þriðja lands (e. resettlement) þegar hvorki eru möguleikar á að flytjast aftur til upprunalands né möguleikar á að setjast að í dvalarlandi að mati Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Dvalarlandið getur í þessum tilvikum ekki veitt fólkinu nauðsynlega vernd eða aðstæður eru að öðru leyti með þeim hætti að stofnunin metur brýnt að koma fólkinu til þriðja lands þar sem fólkið fær skjól og vernd. Einungis þeir allra verst settu eiga kost á að flytjast til þriðja lands. Ísland er eitt þeirra landa sem tekur á móti fólki í þessum aðstæðum. Hér er um að ræða fólk sem verður að fá nýjan samastað. Það er ekki hægt að aðstoða fólkið með því að senda því fjármagn, það hefur enga aðstöðu til að nýta sér slíka aðstoð – það á engan samastað.

Flóttafólk sem íslensk stjórnvöld bjóða kemur úr síðast talda hópnum; hinir svokölluðu kvótaflóttamenn.

 

Hvernig hefur flóttafólkinu farnast hér á landi?

Árið 2004 var gerð vönduð könnun á því hvernig flóttafólki sem komið hefur til Íslands allt frá árinu 1956 hefur vegnað. Var bæði gerð megindleg rannsókn og tekin voru viðtöl við 15 fjölskyldur. Í stuttu máli hefur því farnast vel hér á landi. Mikill meirihluti er í launuðu starfi og rúmur helmingur svarenda hafði áhuga á frekara námi. Þá kom fram að mikill meirihluti treystir Íslendingum fullkomlega eða mjög vel og mikilvægustu þættir í lífi þeirra eru fjölskyldan og vinnan. Meirihluti telur heilsufar sitt gott eða frekar gott. Allir sem tóku þátt í viðtalskönnuninni lýstu yfir þakklæti fyrir þá aðstoð sem þeim hafði verið veitt hér á landi. Félags- og tryggingamálaráðuneytinu og Rauða krossi Íslands er ekki kunnugt um annað en að flóttamönnunum sem hér hafa sest að hafi gengið lífsbaráttan vel og ekki hafa verið alvarlegir árekstrar milli innfæddra og flóttafólksins. Ljóst er þó að hrakningar og flótti, og sorg yfir því að hafa neyðst til að yfirgefa heimaslóðir, samhliða aðlögun í nýju landi hlýtur að hafa reynst fólkinu erfitt.

 

Framkvæmdin við móttöku flóttafólks

Utanríkisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið hafa gert með sér samkomulag um að hið fyrrnefnda leggi fram fjármagn til að standa straum af móttöku 25–30 flóttamanna á hverju ári. Verður árlega varið allt að 100 milljónum króna til þessa verkefnis, fyrst og fremst til að veita flóttafólkinu nauðsynlega aðstoð og stuðning fyrsta dvalarárið, en einnig til ferðakostnaðar. Tveir samningar eru gerðir, annar við móttökusveitarfélag og hinn við Rauða kross Íslands sem vinnur náið með Rauða kross deildinni í viðkomandi sveitarfélagi. Í hlutverki sveitarfélagsins felst að veita þjónustu og aðstoð við flóttafólkið. Í því felst meðal annars aðstoð við útvegun húsnæðis, fjárhagsaðstoð samkvæmt reglum sveitarfélags og aðstoð við útvegun atvinnu. Á sviði menntamála er meðal annars átt við leikskóladvöl, grunnskólakennslu, móðurmálskennslu fyrir börnin, stuðningur við grunnskólanema, samfélagsfræðsla og nám í íslensku fyrir fullorðna. Rauði krossinn, sem komið hefur að móttöku flóttafólks hér á landi allt frá því fyrstu hóparnir komu til landsins, heldur meðal annars utan um og undirbýr stuðningsfjölskyldur sem hafa reynst flóttafólkinu ómetanlegar við kynningu á íslensku samfélagi, siðum og venjum auk margs konar aðstoðar við fyrstu skrefin hér á landi. Samstarf félags- og tryggingamálaráðuneytis, Rauða krossins og móttökusveitarfélags hefur verið nánast hnökralaust í gegnum árin. Flóttamannanefnd hefur sett sér ítarlegar viðmiðunarreglur þar sem fjallað er um ákvörðun á flóttamannahópi, móttöku hans og framkvæmd verkefnisins.

 

Flóttamannanefnd

Félags- og tryggingamálaráðherra skipar flóttamannanefnd til fimm ára í senn. Dóms- og kirkjumálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og Rauði kross Íslands tilnefna hvert sinn fulltrúa í nefndina, en formaður er skipaður af félags- og tryggingamálaráðherra. Nefndin leggur til við ríkisstjórn heildarstefnu og skipulag um móttöku flóttamannahópa og hefur yfirumsjón með framkvæmd á móttöku hópanna. Félags- og tryggingamálaráðherra og utanríkisráðherra leggja hverju sinni að fenginni tillögu flóttamannanefndar til við ríkisstjórn að tekið verði á móti tilteknum fjölda flóttafólks frá tilteknu landi eða löndum. Byggir nefndin tillögu sína að miklu leyti á mati Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og var að þessu sinni lagt til að tekið yrði á móti hópi flóttamanna af palestínskum uppruna sem dvelja í Al-Waleed flóttamannabúðunum á landamærum Íraks og Sýrlands. Íslensk sendinefnd mun fara í búðirnar, taka viðtöl við fólkið, kynna þeim Ísland og meta hversu vel aðstæður á hér á landi geti komið til móts við þarfir fólksins.

 

Hvaðan kemur fólkið sem mun setjast að á Akranesi?

Í Al-Waleed búðunum búa Palestínumenn sem flúðu Írak í kjölfar innrásar í landið 2003. Aðstæður í Al-Waleed búðunum eru skelfilegar, fólkið býr við stöðuga hættu, skort á vatni og heilbrigðisþjónustu, kulda á vetrum og hita á sumrin. Í þessum búðum voru tæplega 2.000 manns í mars síðastliðnum.

 

Kynning flóttamannanefndar á verkefninu á Akranesi

Tveir fulltrúar flóttamannanefndar funduðu tvívegis með Akurnesingum í apríl síðastliðnum. Þessir fulltrúar þekkja verkefnið best af hálfu nefndarinnar og hafa komið beint að móttökunni frá 2005, tekið viðtöl við fólkið í dvalarlandi, kynnt þeim íslenskar aðstæður, aðstoðað við komuna til Íslands og unnið að verkefninu hér á landi. Annar fulltrúanna hefur undirbúið samningana við sveitarfélög og Rauða kross Íslands. Fyrri fundurinn var með félagsmálastjóra, formanni félagsmálaráðs og fulltrúa Rauða kross deildarinnar á Akranesi. Seinni fundurinn var með bæjarfulltrúum, fulltrúum í félagsmálaráði, starfsmönnum ráðsins og bæjarstjóra auk félagsmálastjóra Reykjanesbæjar sem greindi frá reynslu sveitarfélagsins af móttöku flóttafólks 2001. Var meðal annars farið ítarlega yfir móttöku flóttafólksins, viðmiðunarreglur flóttamannanefndar kynntar og skýrsla síðasta flóttamannaverkefnis afhent. Bæjarfulltrúum og félagsmálaráði gafst kostur á að spyrja ýmissa spurninga sem fulltrúar flóttamannanefndar svöruðu.  Mánudaginn 26. maí næstkomandi verður haldinn kynningarfundur með íbúum á Akranesi, fulltrúum sveitarstjórnar, flóttamannanefnd og Rauða krossinum það sem verkefnið verður kynnt og spurningum svarað.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta