Hoppa yfir valmynd
23. maí 2008 Innviðaráðuneytið

Ný flugbraut á Sandskeiði

Ný flugbraut með bundnu slitlagi á Sandskeiði var formlega vígð í dag og er hún við hlið grasbrautarinnar fyrir svifflugur sem þar hefur verið í áratugi. Nýja brautin er ætluð vélflugum og verður opin öllu kennslu- og æfingaflugi.

Flugbraut vígð á Sandskeiði
Flugbraut vígð á Sandskeiði. Haukur Hauksson (t.v.) og Kristján Sveinbjörnsson.

Svifflugfélag Íslands hefur um árabil haft aðstöðu sína við flugvöllinn á Sandskeiði og klipptu þeir Kristján Sveinbjörnsson, formaður félagsins, og Haukur Hauksson, framkvæmdastjóri flugvalla- og flugleiðsögusviðs Flugstoða, á borða við vígslu vallarins að viðstöddum gestum.

Nýja brautin sem er tæplega 700 metra löng er liður í þeirri áætlun Flugstoða að létta álagi og draga úr truflun af hávaða á Reykjavíkurflugvelli með því að beina snertilendingum og öðru kennsluflugi frá vellinum. Á síðasta ári voru snertilendingar á Reykjavíkurflugvelli 17.929 talsins sé hver lending og hvert flugtak talið ein snerting.

Kristján Sveinbjörnsson segir vélflug og svifflug vel eiga að geta farið saman á flugbrautunum á Sandskeiði. Gera megi ráð fyrir að æfingaflugið á vélflugum geti farið fram alla daga og svifflugmenn séu einkum á ferðinni um kvöld og helgar og að með stjórnun umferðar eigi umferðin að ganga vel fyrir sig.

Kostnaður við brautarlagninguna er alls 28 milljónir króna. Verið er að setja upp sjálfvirka veðurstöð á vellinum og er kostnaður við hana kringum 12 milljónir króna. Hönnun og eftirlit brautarinnar var í höndum Verkfræðistofunnar Hönnunar en Klæðning sá um lagningu slitlags.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta