Hoppa yfir valmynd
27. maí 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Stór áfangi í þróun rafrænna skilríkja

Íslandsrótar merki
Íslandsrótar merki

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 22. maí 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Íslandsrótar merkiEin helsta forsendan fyrir útbreiðslu rafrænnar þjónustu er að rafræn málsmeðferð njóti sama trausts og hefðbundin málsmeðferð.

Traustið felst í því að öryggi, trúnaður og festa við meðferð mála séu óháð því hvaða aðferð er notuð. Mikilvæg forsenda fyrir því trausti er að aðilar sem stunda rafræn viðskipti séu vottaðir og þær upplýsingar sem miðlað er séu varðveittar.

Síðastliðin ár hafa fjármálaráðuneytið, fyrir hönd ríkisins, og Auðkenni hf., fyrir hönd banka og sparisjóða, átt í samstarfi um útbreiðslu rafrænna skilríkja á debetkortum. Í samstarfssamningi þessara aðila er kveðið á um að fjármálaráðuneytið stofni og beri ábyrgð á sérstakri vottunarrót fyrir Ísland. Þriðjudaginn 20. maí 2008 var slíkri vottunarrót komið á fót með stofnun svonefndrar Íslandsrótar.

Íslandsrót er efst í stigveldi trausts í skipulagi um rafræn skilríki, svokölluðu dreifilyklaskipulagi. Með dreifilyklaskipulagi er m.a. átt við það skipulag sem þarf til að framleiða skilríki. Mikilvægur þáttur í útbreiðslu rafrænna skilríkja er að notendur geti treyst á og staðfest með auðveldum hætti heilleika rafrænna auðkenninga og undirskrifta og að traustur aðili sé tilbúinn til að votta þann heilleika. Íslandsrót er starfrækt af sérstakri vottunarstöð Íslandsrótar sem fjármálaráðuneytið hefur umsjón með og er uppruni trausts í dreifilyklaskipulagi.

Á grunni Íslandsrótar verður nú hægt að gefa út svokölluð milliskilríki sem eru hugsuð sem vottunarstöð fyrir útgáfu endaskilríkja. Endaskilríki geta verið persónutengd sem einka- eða starfsmannaskilríki. Rafræn skilríki á debetkortum eru dæmi um slík skilríki. Endaskilríki geta einnig verið ótengd persónum og ætlað til auðkenningar á búnaði, tölvukerfi eða skipulagseiningu, t.d. félagi, sviði eða deild í fyrirtæki. Með almennri útbreiðslu rafrænna skilríkja á debetkortum, útgáfu starfsmannaskilríkja og útgáfu annarra rafrænna skilríkja verður Íslandsrótin í lykilhlutverki í traustu rafrænu samfélagi á Íslandi.

Stofnun og starfræksla Íslandsrótar er tvímælalaust einn stærsti áfangi í samstarfsverkefni um útgáfu rafrænna skilríkja.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta