Hoppa yfir valmynd
27. maí 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Verðlaun veitt á degi barnsins

Hátt á annað hundrað tillögur bárust í samkeppni um merki og stef dags barnsins sem haldinn var í fyrsta sinn á Íslandi 25. maí síðastliðinn.

Degi barnsins var fagnað um allt land á ýmsan hátt. Gleði og samvera var yfirskrift hátíðahaldanna og í Ráðhúsi Reykjavíkur var boðið upp á skemmtidagskrá þar sem börn komu með foreldrum sínum, öfum, ömmum, frændum og frænkum, hlustuðu á lúðrasveit ungmenna og barnakór og gerðu sér fleira til gamans. Hæst bar þó verðlaunaafhending í samkeppninni um merki og stef dagsins sem efnt var til með það í huga að þannig gætu börn og ungmenni merkt sér daginn og gefið honum sinn einstaka svip og hljóm. Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, ávarpaði gesti og síðan afhenti verndari dagsins, Dorrit Moussaieff forsetafrú, verðlaunin.

Fagfólki í dómnefndum var vandi á höndum að velja úr mörgum góðum tillögum en niðurstaða þeirra varð eftirfarandi:

Verðlaun fyrir besta merkið voru 50.000 krónur og þau hlaut Bryndís Jóna Hilmarsson og er hún fædd árið 1999. Bryndís Jóna stundar nám í Grundaskóla á Akranesi. Myndin hennar heitir „Samvera“.

Verðlaun fyrir stef, sem einnig voru 50.000 krónur hlaut Kristín Hrönn, en hún er fædd árið 1991.

Vinningshöfunum er óskað sérstaklega til hamingju og nú hefst vinna við að útfæra merkið og stefið þannig að dagur barnsins, sem fellur á 24. maí árið 2009, sjáist og heyrist.

Allar upplýsingar um samkeppnina og margt fleira er að finna á heimasíðunni www.dagurbarnsins.is þar sem unnt er að skoða og hlusta á tillögurnar sem bárust.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta